Nóttin var tiltölulega róleg í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en frá klukkan 17 síðdegis í gær til klukkan fimm í morgun voru 55 mál skráð hjá lögreglu.
Að sögn lögreglu var maður frelsissviptur, laminn og rændur í Kópavogi. Árásarmannanna er leitað og er málið í rannsókn. Frekari upplýsingar um málið koma ekki fram í skeyti sem lögregla sendi frá sér í morgunsárið.
Þá fékk einn að gista fangaklefa eftir að hafa verið handtekinn í miðborginni. Maðurinn hafði brotist inn á hótel en engin starfsemi er á umræddu hóteli sem stendur.
Að lokum voru fjórir ökumenn stöðvaðir fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur.