Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna og fyrrverandi varaþingmaður Miðflokksins, segir tíma til kominn að aflétta höftum á landamærunum. Hann skorar á ráðherra og sóttvarnaryfirvöld að gangast við sínum mistökum, sem hann segir felast í of þungum og langvarandi takmörkunum á frelsi.

Þetta kemur fram í skoðanapistli Jóns Þórs á vef Vísis í dag.

Jón Þór segir meðal annars að stjórnvöld hafi rekið grímulausan áróður gagnvart landamærunum.

„Þar er átt við alla sem ferðast um þau, bæði íslenska ríkisborgara sem og erlenda gesti. Við landamærin eru allir sem þar fara um skimaðir og þannig er öllum borgurum gert að gefa lífssýni, ellegar sæta farbanni og / eða frelsissviptingu í formi stofufangelsis,“ segir í pistlinum.

Jón Þór segir réttlætinguna fyrir takmörkunum megi líkja við ofbeldi. Það að verið sé að standa vörð um heilbrigðiskerfið og vernda borgarana standist enga skoðun.

„Komið hefur fram í fjölmiðlum að undirliggjandi vandi Landspítalans sé starfsumhverfi og launamál. Slíkan vanda þarf að leysa þar sem lausna er að leita en ekki með frelsisskerðingum og inngripum í líf almennra borgara.“

Í pistlinum segir að tíma kominn til að aflétta öllum höftum, innanlands og á landamærunum.

„Staðreyndin er sú að veikindi af völdum kórónuveirunnar eru sem betur fer sjaldgæf og flestir sem smitast finna ekki fyrir teljandi einkennum eða eftirköstum. Afleiðingar langvarandi aðgerða á venjulegt fólk og fyrirtæki eru hinsvegar víðtækar og verða þegar fram líður gríðarlega kostnaðarsamar,“ segir Jón Þór jafnframt.

Jón Þór er ekki sá eini sem hefur gagnrýnt aðgerðir stjórnvalda á landamærunum. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar, gagnrýndi aðgerðirnar í færslu á Facebook-síðu sinni í gær.

Þar sagði Jóhann Þór ákvörðun ríkisstjórnarinnar vera mjög dýr efnahagsleg mistök. Staðreyndin væri efnahagsleg áhrif á útflutningstekjur þjóðarbúsins yrðu að minnsta kosti um 26 milljarðar króna.

„Þessi ákvörðun jafngildir því að ríkisstjórnin ákvæði að veiða ekki nema helming loðnukvótans í vetur,“ sagði Jóhannes Þór í færslunni.