„Í grunninn snýst þetta um að taka sér tíma í það sem maður er að gera,“ segir Þóra Jónsdóttir, formaður Hæglætishreyfingarinnar á Íslandi. Hreyfingin var nýlega stofnuð hér á landi og samanstendur af fólki sem hefur tileinkað sér, eða hefur áhuga á að tileinka sér, hæglæti.

Þóra segir hæglæti snúa að því að vera með athygli á núlíðandi stund. „Að heyra og hlusta, að anda og njóta, að velja meðvitað að takmarka streitu, draga úr neyslu, taka sér minna fyrir hendur og gera færri hluti í einu,“ segir hún.

Sjálf kynntist Þóra hugmyndinni um hæglæti fyrir um fimmtán árum. „Ástandið í samfélaginu er svo rafmagnað af keppni, spennu og einhvers konar hamfarahyggju,“ segir hún.

„Við erum öll í svo mikilli keppni um að eiga fínustu húsin, ná að gera allt sem ætlast er til af okkur og vera dugleg á öllum sviðum en á sama tíma sýnum við bara glansmynd af okkur á samfélagsmiðlum svo við erum ekki einu sinni að keppa við sannleikann,“ bætir Þóra við.

Að sögn Þóru breytti það miklu í hennar lífi þegar hún tileinkaði sér hæglæti. „Ég hef alla tíð átt erfitt með hraða samfélagsins og þegar ég uppgötvaði hæglæti var það mikil hugarró fyrir mér,“ segir hún.

„Það að láta af eigin hugmyndum og eigin kröfum um það að ég væri ekki að standa mig nógu vel heldur að ég mætti bara lifa sæl og glöð með það sem ég hefði var frelsandi fyrir mig.“

Hreyfinguna stofnaði Þóra í hópi kvenna sem allar halda úti Insta­gram-reikningum sem snúa að einhverju leyti að hæglæti.

„Mig langaði að stofna hóp utan um þetta hugðarefni og það er mikill áhugi í samfélaginu,“ segir Þóra.

Markmið hreyfingarinnar er að skapa umræðu um hæglæti og eru Þóra og félagar hennar í hreyfingunni nú þegar farin af stað með hlaðvarpsþátt um efnið.

„Það eru margir opnir fyrir þessum pælingum,“ segir Þóra. „Það er heillandi að hugsa um það hvað er í fyrsta sæti, en ekki bara spenna bogann og eignast allt á lánum þannig að þú þurfir að vinna meira til að geta átt fyrir lánunum, heldur að láta nægja það sem þú hefur þar til þú getur bætt við.“

Þóra segir miklvægt að staldra við og jafnvel vinna minna þó það þýði að fólk geti þá kannski ekki leyft sér eins mikið, „En þú nýtur þess mögulega betur að eiga samfylgd og góðar stundir með þér og fjölskyldunni þinni,“ segir hún.