Undir­búnings­nefnd kjör­bréfa­nefndar Al­þingis vinnur nú hörðum höndum að því að meta máls­at­vik við fram­kvæmd kosninganna í Norð­vestur­kjör­dæmi til á­hrifa. Al­þingi verður sett á þriðju­dag og á niður­staða nefndarinnar að vera kynnt þá.

Sautján blaðsíður af málsatvikalýsingu

Í gær birti undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis nýjustu drög að ítarlegri málsatvikalýsingu á framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi vegna síðustu Alþingiskosninga. Drögin telja sautján blaðsíður og fer yfir allt frá framkvæmd talningar, endurtalningar og hvaða upplýsingar hafa komið fram í störfum nefndarinnar.

Flest af því sem fram kemur í drögunum hefur komið fram áður.

Frávik fundust í þriðju ferðinni

Fjölmiðlar hafa nú þegar greint frá því að frávik hafi fundist í þriðju og síðustu vettvangsferð nefndarinnar í Borgarnes fyrr í mánuðinum. Að sögn Birgis hafi frávikin ekki verið stór en engar frekari upplýsingar voru gefnar um þessi tilgreindu frávik fyrr en nú, í nýjustu drögum nefndarinnar.

Í nýjustu drögum nefndarinnar kemur fram að ákvörðun hafi verið tekin í Borgarnesi að stemma atkvæði fjögurra lista með talningu í tveimur umferðum.

„Við yfirferð flokkunar atkvæðaseðla komu í ljós 12 seðlar með merkingum þar sem átt hefur við fleiri en einn framboðslista, seðill var með áletrun sem felur í ekki í sér formað merki, seðill var með auðkenndu merki, eða seðillinn tilheyrt öðrum lista ein þeim bunka sem hann fannst í,“ segir í drögunum.

Jafnframt segir að hvað varðar gildi þessara seðla, „verður að ítreka að ekki lágu fyrir upplýsingar um hvort væri að ræða vafaatkvæði sem yfirkjörstjórn hafi úrskurðað um eða hvort um væri að ræða yfirsjón.“

Ekki breytt niðurstöðu kosninganna

Af þessum tólf seðlum fundust fjögur frávik hjá B-lista, tvö hjá C-lista, eitt hjá D-lista, eitt hjá F-lista, tvö hjá J-lista, eitt hjá M-lista og eitt hjá P-lista. Engin frávik fundust hjá O-, V- og S-lista, að því er fram kemur í drögunum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins skiptir það í raun ekki máli hvort seðlarnir tólf hafi verið úrskurðaðir ógildir af yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis eða hvort þeir hafi farið í gegnum talningu án þeirra aðkomu. Tilfærslur á þeim hefðu ekki haft áhrif á niðurstöður kosninganna, þó þeir hefðu haft áhrif á fjölda atkvæða hvers flokks.

Þegar uppi er staðið snúist málið að stórum hluta um það hvort hægt sé að treysta því að kjör­gögnin í Norð­vestur­kjör­dæmi séu ó­spillt eða hvort það þurfi að sann­reyna það, sé það þá yfir höfuð hægt.

Vísir greindi frá því í dag að nefndin hygðist skila tveimur tillögum að viðbrögðum Alþingis vegna stöðunnar en hvorug leiðanna felur í sér að fyrri talningin í Norðvesturkjördæmi verði látin standa. Annars vegar geti Al­þingi sam­þykkt upp­kosningu í kjör­dæminu eða að seinni talningin verði látin gilda.

Líkt og gefur að skilja eru ekki allir sáttir með tillögurnar tvær.