Gangan Frá skítalækjum til fráveitu og lýðheilsu, undir stjórn Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings, fór fram í síðustu viku og komu yfir hundrað manns til að fræðast um skólpsögu miðbæjarins. Í göngunni rakti Guðjón skólpsögu miðborgarinnar síðustu 100 árin.

Gangan hófst við Landakotsspítala en það voru einmitt nunnurnar í Landakoti sem létu fyrst leggja skólp­lögn ofan af hæðinni, niður Ægisgötuna og í sjó fram, árið 1902.

Fjallað var um þann tíma þegar skólp rann í opnum rennum eða jafnvel eftir götunum sjálfum og tildrög og sögu þeirra miklu ræsa sem leystu skítalækina af hólmi og stórbættu lýðheilsu.

Göngunni lauk í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem boðið var upp á heitt kakó og veitingar og gestum gafst kostur á að skoða bók Guðjóns, Cloacina – Saga fráveitu.

Gangan var haldin í tilefni af alþjóðlegum klósettdegi Sameinuðu þjóðanna 19. nóvember, en þá er leitast við að beina sjónum að mikilvægi góðrar fráveitu fyrir samfélag, umhverfi og heilsu fólks.

Guðjón segir að fráveitan sé ekki síður mikilvægur hluti innviða borgarinnar en heilbrigðiskerfið, rafmagnið eða hitaveitan, svo að dæmi séu tekin.

„Hún er bara svo falin því hún er öll annað hvort neðanjarðar eða neðansjávar, svo fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir umfangi hennar og hvað hún er mikilvæg.“

Í langri sögu fráveitunnar í höfuðborginni segir Guðjón að mörg kaflaskil hafi orðið.

„Ein þau helstu urðu þegar ákveðið var að leggja endanlega holræsi um allan bæinn 1911.“

„Þá var lagður á sérstakur skattur til að það yrði framkvæmt. Þetta kom ekki ofan frá því íbúarnir voru farnir að skora á bæjarstjórn að leggja holræsi í götur og buðust til að borga á móti,“ segir Guðjón. „Önnur merk kaflaskil urðu svo á árunum 1986 til 2005 þegar hætt var að veita skólpinu í fjörurnar og það leitt langt á haf út eftir að fara í gegnum hreinsunarstöðvar,“ segir Guðjón Friðriksson.