Í tæpan áratug hefur stokkandarpar lagt leið sína að skyndibitastaðnum Hlölla við Ingólfstorg til þess að sníkja sér brauð í gogginn. Milli þeirra og starfsmanna staðarins hefur myndast einstakt vinasamband.
„Steggurinn er alltaf mættur hingað á undan okkur á morgnana og stekkur upp að rúðunni til þess að láta vita af sér,“ segir Guðjón Þór Valsson, starfsmaður Hlölla. Að sögn Guðjóns var kolla alltaf með steggnum í för og hófu endurnar klóku að venja komur sínar á Hlölla löngu áður en hann byrjaði sjálfur að vinna á staðnum niðri í bæ. „Þau eru líklega búin að heimsækja okkur í um áratug,“ segir Guðjón.
Stegginn hafa starfsmennirnir kallað Andrés og því rökrétt að kollan heiti Andrésína. Starfsmenn Hlölla hafi skemmt sér við að fylgjast með hegðun andanna og þá sérstaklega herramannslegri framkomu Andrésar.

„Hann passaði alltaf að hún fengi fyrstu molana og byrjaði ekki að borða sjálfur fyrr en hún var orðin södd. Hann greip kannski einn og einn brauðmola en þá aðeins ef hann sá að hún sneri undan,“ segir Guðjón og hlær.
Auðheyrt er að Guðjóni og öðrum starfsmönnum staðarins þyki mjög vænt um þessa vini sína. „Maður passar upp á þau eins og börnin sín. Þá sjaldan að einhver er að angra þau þá rýkur maður út til að passa upp á þau," segir Guðjón.
Hin útsjónarsömu hjón sátu lengi vel ein að gnægtaborði Hlölla allt þar til að annað par fór að færa sig upp á skaftið fyrir nokkrum árum. „Það verður allt vitlaust þegar það par kemur á sama tíma og þá slást steggirnir stundum,“ segir Guðjón. Andrés hefur haft yfirhöndina í þeim slag og yfirleitt passar hitt parið sig á að koma á öðrum tíma.
En sönn ást er hverful, ef hún er þá yfir höfuð til. Fyrir nokkru síðan tóku starfsmenn staðarins eftir því að Andrés og Andrésína fóru að mæta hvort í sínu lagi. Þau virðast skilin að brauði og sæng.
„Þetta er mjög skrýtið. Þau koma aldrei saman lengur og þá sjaldan að það gerist heldur Andrés sig í hæfilegri fjarlægð,“ segir Guðjón. Andrés hættir sér ekki nærri fyrr en ungamóðir hans hefur étið nægju sína. „Við erum hrædd um að þau séu skilin. Hann þorir ekki að koma nálægt henni lengur,“ segir Guðjón alvarlegur.
En ljóst er að starfsmenn Hlölla munu ekki skipa sér í fylkingar í skilnaðarferlinu. Hvort sem Andrés er ekki allur þar sem hann er séður, nú eða Andrésína flagð undir fögru fiðri, þá munu starfsmenn Hlölla halda áfram að lauma að þeim góðgæti um ókomna tíð – bara hvoru í sínu lagi.