Embættismaður innan franska menningarmálaráðuneytisins hefur verið ákærður fyrir að byrla konum með þvagræsilyfi til þess að geta fylgst með þeim pissa. Samkvæmt erlendum fjölmiðlum er um að ræða yfir 200 konur.

Brotin eru sögð hafa átt sér stað á árunum 2009 til 2018 þegar konurnar voru í atvinnuviðtölum hjá ráðuneytinu. Maðurinn er er einnig sakaður um að hafa tekið myndir af fótum kvennanna undir skrifborði sínu á meðan viðtölunum stóð, að þeim óafvitandi.

Bauðst til að skýla þeim með jakka sínum

Franska dagblaðið Libération hafði það eftir fimm konum að þeim hefði verið boðið te eða kaffi í viðtali sínu og síðan hafi maðurinn rölt með þær í skoðunarferð um helstu menningarsögulegu staðina í grennd við ráðuneytið í París.

Þegar konurnar voru svo alveg í spreng í göngutúrnum vegna lyfsins, sem hann hafði sett í drykk þeirra, stakk hann upp á því að þær gætu létt af sér undir brú bakka árinnar Signu og bauðst til að skýla þeim með jakkanum sínum á meðan. „Ég pissaði á götuna, nánast alveg við fætur hans,“ er haft eftir einni konunni. „Ég var niðurlægð og skammaðist mín mikið.“

Ein konan sagðist þá hafa lagst inn á spítala eftir að hafa fengið þvagfærasýkingu vegna lyfsins. Samkvæmt heimildum franska fjölmiðilsins hélt embættismaðurinn utan um öll atvikin í Exel-skjali í tölvunni sinni.

Upp komst um manninn eftir að kona nokkur gómaði hann við að taka myndir af fótum sínum undir skrifborðinu. Hún tilkynnti manninn til ráðuneytisins sem leitaði þá til lögreglu. Þá fannst skjalið í tölvunni hans og kom í ljós að hann hefði byrlað konunum með sterku þvagræsilyfi.

Tvær konur hafa þá sagst hafa kvartað undan manninum áður en ráðuneytið hafi ekki aðhafst neitt í þau skipti. Menningarmálaráðherra Frakklands, Franck Riester, sagði í samtali við erlenda fjölmiðla að hann væri „gáttaður á sturluðum perraskap“ sem hefði komið upp í þessu máli.

Frétt BBC um málið.