Búist er við því að helmingur allra grunn­skóla í Frakk­landi muni þurfa að loka í dag þegar verk­fall kennara hefst. Lík­legt er að þrír af hverjum fjórum kennurum muni leggja niður störf sín til að mót­mæla óreiðukenndum Co­vid-aðgerðum í skólum.

Frakk­land hefur sjaldan lokað skólum vegna far­aldursins en sú bylgja sem ríður nú yfir hefur truflað skóla­hald mikið frá því að þeir opnuðu á ný í janúar. Um tíu þúsund bekkir hafa þurft að af­nema kennslu vegna smita meðal kennara eða nem­enda.

Sýna­töku reglur barna hafa breyst nokkrum sinnum frá því í byrjun janúar. For­eldrar og börn hafa í mörgum til­fellum þurft að bíða í löngum röðum eftir sýna­tökum áður en börnin gátu mætt í aftur skólann eftir smit í bekknum.

Dagleg Covid-smit í Frakklandi frá byrjun faraldursins til dagsins í dag.
Mynd/Johns Hopkins háskóli

Í þessari viku var á­kveðið að fjöl­skyldur gætu notast við nokkur heima­próf til að á­kvarða hvort nemandi geti mætt aftur til náms. Allir nem­endur sex ára og eldri þurfa að vera með grímu í skólanum.

Dagvistun en ekki kennsla

Stéttar­fé­lög kennara segja ríkis­stjórnina vera að bregðast börnunum með ó­reiðu­kenndum að­gerðum gegn far­aldrinum. Að­gerðirnar veiti ekki nægi­lega góða vörn gegn smitum fyrir starfs­fólk og nem­endur.

Ekki er búið að tryggja af­leysingar fyrir kennara sem veikjast og skólar þurfa að hefta venju­lega starf­semi til að geta séð um að senda börn í sýna­tökur og rekja mögu­leg smit.

Stéttar­fé­lög hafa bent á ó­mögu­leika þess að fá góða kennslu við þessar að­stæður. Þau segja kennslu­stofur vera svo gott sem dag­vistun fyrir börnin.

Kallað er eftir því að starfs­fólk skólanna fái út­hlutaðar al­menni­legar grímur og loft­gæða­mæla fyrir kennslu­stofur til að geta fylgst með því að loft­ræstingin sé nægi­lega góð.

Stærsta for­eldra­fé­lag Frakk­lands hefur einnig stutt við verk­fallið og hvetja for­eldra til að halda börnunum heima í dag. Fé­lagið vill að munn­vatns­sýni séu tekinn innan skólanna, að að­stæður til fjar­kennslu séu bættar og að ráðnir séu fleiri af­leysinga­kennarar.