Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir að eina af­brigðið sem greinist nú af kórónu­veirunni sé hið svo­kallaða „franska af­brigði“ veirunnar. Þetta kom fram í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Af­brigði veirunnar er svo kennt vegna þess að það er talið eiga upp­runa sinn að rekja til tveggja franskra ferða­manna sem ferðuðust hingað til lands í ágúst síðast­liðnum. Síðast­liðinn mánuð greindust ríf­lega 1700 manns með veiruna innan­lands. Fjórir liggja nú á gjör­gæslu, tveir í öndunar­vél og 27 á sjúkra­húsi.

Frá miðjum ágúst hafi að­eins þetta eina af­brigði veirunnar fundist hér á landi. 150 af­brigði greinist hins­vegar á landa­mærunum. „Það er þannig enn­þá og sýnir sem betur fer að við erum ekki að missa nýja stofna í gengum ladna­mærin en auð­vitað getur það gerst en þessar að­gerðir sem eru í gangi á landa­mærunum lág­marka þá á­hættu,“ segir Þór­ólfur í kvöld­fréttum.

Áður hefur orð­ræða um um­rætt af­brigði veirunnar verið gagn­rýnd. Þannig var Þór­ólfur gagn­rýndur fyrir að kenna veiru­stofninn við ferða­mennina og þjóð­erni þeirra og hefur áður meðal annars sagt af­brigðið vera það sem „ekki má nefna.“

Kári Stefáns­son hefur sagt ó­sann­gjarnt að skella skuld á ferða­mennina tvo í sam­tali við franska fjöl­miðla­menn. „Það að kenna þessum tveimur frönsku ferða­­mönnum um er ó­­sann­gjarnt og á sér enga stoð í raun­veru­­leikanum, og ég tek ekki þátt í slíku,“ sagði Kári í sam­tali við AFP.