Frans páfi, sem hlotið hefur mikið lof í páfatíð sinni fyrir frjálslyndar og framsæknar hugmyndir, sagði í dag í ræðu sinni að fóstureyðingar væru aldrei réttlætanlegar og líkti þungunarrofi við það að ráða sér leigumorðingja.

Páfinn lét þessi ummæli falla á ráðstefnu Vatíkansins um þungunarrof. Sagði hinn 82 ára Argentínumaður sagði að andstæðan við þungunarrof hefði ekkert með trú að gera, heldur væri það mannlegt málefni. „Er það réttlætanlegt að kasta burt lífi til að leysa vandamál? Er réttlætanlegt að leigja sér leigumorðingja til að leysa vandamál?“ spurði páfinn áheyrendur sína.

Sérstaklega fordæmi Frans þungunarrof á grundvelli rannsókna í móðurkvið, sem varpað geta ljósi á það hvort að fóstur sé haldið lífshættulegum fæðingargöllum. Sagði hann að mannfólk væri aldrei „ósamrýmanlegt lífi“.

Heitar umræður um þungunarrof

Páfinn hefur áður viðrað þessar skoðanir sínar á þungunarrofi. Þó hefur hann jafnframt sýnt konum sem hafa undirgengist þungarrof samúð. Óneitanlega verður að skýra ummæli páfans í ljósi hertar þungunarrofslöggjafar í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna, en lagabreytingarnar hafa verið mikið til tals á undanförnum vikum. Á föstudaginn dæmi bandrískur alríkisdómari löggjöf Mississippi-fylkis ólögmæta, í samræmi við dómafordæmi hæstaréttar Bandaríkjanna í svokölluðu Roe v. Wade máli.

Löggjöfin í Mississippi bannar fóstureyðingu eftir að hjartasláttur fósturs er greinanlegur, en það gerist vanalega í kringum sjöttu viku meðgöngu. Hafa lagabreytingarnar uppskorið fordæmingu baráttufólks fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna, einkum í ljósi þess að sjaldan eru konur meðvitaðar um þungunina þegar svo stutt er komið á veg.

Þrjú önnur fylki, Georgía, Kentucky og Ohio, hafa sett sambærilega löggjöf, og enn lengra gengur fylkislöggjafinn í Alabama-fylki. Þessi hrina af þrengingum á löggjöf má túlka sem tilraun Repúblikana til að fá hnekkt ofangreindu dómafordæmi, Roe v. Wade, en íhaldsmenn skipa nú meirihluta hæstaréttar Bandaríkjanna í fyrsta sinn svo áratugum skipti.