Þann 1. ágúst næstkomandi stefnir ítalski flugvélaverkfræðingurinn Alberto Porto á að fljúga flugvél sinni Risen frá Skotlandi til Íslands. Vélin er framleidd af svissneska fyrirtækinu Swiss Excellence Airplanes og þykir mikið til hennar koma.Heimsókn Porto til landsins er að hluta til fyrir tilstilli Gunnars Jónssonar flugmanns sem hvatti hann til að koma.

„Ég kynntist þessum manni símleiðis eftir að hafa fylgst með honum og vélinni hans, verandi gamall einkaflugmaður sjálfur,“ segir Gunnar. „Hann hefur verið að fljúga í Brasilíu og Bandaríkjunum svo ég hafði samband við hann og sagði honum að ef ég gæti eitthvað aðstoðað hann myndi ég gera allt sem ég gæti til að aðstoða hann vegna aðdáun minnar á flugvélinni. Ég bauð honum meðal annars afnot af flugskýlinu mínu ef það skyldi nú hvessa.“

Gunnar, sem er sjötíu og átta ára gamall, er flugheiminum ansi kunnugur en auk þess að vera sjálfur flugmaður hefur hann einnig smíðað sjálfur flugvélar undanfarin tuttugu og fimm ár. En hvað er svona merkilegt við vélina Risen?

„Það má að minnsta kosti nefna þrennt, hraðann, efnið og nýjungarnar,“ svarar Gunnar.Risen er svokölluð fisvél, en miðað er við að vélar í þeim flokki vegi ekki meira en 450 kíló.

Venjulegar vélar í fisflokki geta náð rúmlega 200 km/klst. en Risen nær í farflugi um 330 km/klst. og hefur mælst á yfir 400 km/klst. sem er leifturhraði í sínum flokki. Skrokkur vélarinnar er búinn til úr koltrefjaplasti og er vélin búin nýjustu stafrænu flugmælitækjum, uppdraganlegum lendingarbúnaði, sjálfstýringu og fallhlíf sem hægt er að skjóta út í neyð. Stýriklefi vélarinnar er rúmgóður og þægilegur viðmóts.

Þá er vélin útbúin svokölluðum Rotax 914 mótor sem notar sams konar eldsneyti og bílar og eyðir litlu miðað við kraft. Drægi vélarinnar er því óvenju gott miðað við stærð.„Svo má líka nefna að lendingar- og flugtakssvæðið er að sögn ekki nema 200 metrar,“ segir Gunnar. „Ég hef nú fylgst með ansi mörgu sem hefur farið úrskeiðis í flugheiminum, en ef það gengur eftir þá er það næstum of gott til að vera satt.“