Ár er liðið frá því að Talibanar náðu aftur völdum í Afganistan eftir að Bandaríkjamenn yfirgáfu landið í kjölfar tuttugu ára hersetu. Höfuðborgin Kabúl féll í hendur öfgahópsins þann 15. ágúst í fyrra og markaði nýtt og sláandi upphaf fyrir Afganistan sem hefur verið þrætuepli heimsvelda svo áratugum skiptir.

Talibanar mynduðu ríkisstjórn í september síðastliðnum sem var einungis skipuð karlmönnum og hefur enn ekki verið formlega viðurkennd af neinu öðru ríki. Talibanar fóru hægt í sakirnar fyrst um sinn og lofuðu umbótum frá fyrri stjórnarháttum en fljótlega fór þó að bera á ýmsum hömlum á borgaralegu frelsi og sérstaklega kvenréttindum.

Í viðtali við Fréttablaðið síðastliðinn laugardag líkti doktor Aleksandar Sasha Bodiroza, fulltrúi Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, landinu fyrir og eftir 15. ágúst 2021 við tvö gjörólík lönd. Brynja Dögg Friðriksdóttir, sem starfaði sem borgaralegur sérfræðingur hjá NATO á vegum Íslensku friðargæslunnar í Afganistan 2018-2019, tekur í sama streng.

„Almennt þá held ég að það sé alveg óhætt að segja að þetta er allt annað land en það var fyrir 15. ágúst 2021. Það sem kannski flestir þekkja til og vita um er að veruleiki kvenna og stúlkna er náttúrlega stórbreyttur um allt land. Í rauninni hefur bara versta martröð mjög margra, kvenna og manna, raungerst,“ segir hún.

Stúlkur mega nú aðeins ganga í skóla upp að 6. bekk og stúlkur eldri en 12 ára hafa ekki fengið að stunda nám síðan skólar voru opnaðir aftur í mars síðastliðnum, þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða. Konur hafa verið útilokaðar frá ýmsum störfum og mega nú ekki ferðast lengra en 70 kílómetra án karlkyns fylgdarmanns. Þá voru sett lög í maí sem skylda konur til að ganga með hijab og hylja andlit sitt á almannafæri auk þess sem kvenkyns fréttaþulir hafa verið bannaðir í sjónvarpi.

Brynja Dögg Friðriksdóttir, kvikmyndagerðarkona og höfundur þáttanna Afganistan í öðru ljósi.

Um 40 konur söfnuðust saman fyrir utan skrifstofur menntamálaráðuneytisins í Kabúl og mótmæltu skertum réttindum sínum um helgina. Vopnaðir Talibanar leystu upp mótmælin með því að skjóta úr rifflum upp í loft og börðu einhverjar kvennanna.

„Heimur kvenna er bara svipur hjá sjón samanborið við það sem hann var í sumum borgum Afganistan. Það hefur náttúrlega alltaf verið rosa mikill munur á milli svæða í landinu, þannig að það er ekkert endilega samasemmerki á milli þess hvernig lífið var orðið fyrir konur í Kabúl og víðar í afskekktari byggðum. En engu að síður þá heilt yfir núna er veruleiki kvenna og stúlkna ekki svipur hjá sjón.“

Íbúar Afganistan hafa ekki bara þurft að glíma við skert réttindi og undirokun stjórnvalda heldur hefur hver krísan á fætur annarri dunið á landinu undanfarið ár. Afganistan hefur þjáðst af mikilli efnahagskreppu eftir að gjaldeyrisforði landsins var frystur í kjölfar valdatöku Talibana. Síðasta vetur glímdu Afganar við eina verstu hungursneyð síðari ára og heilbrigðiskerfið var að hruni komið. Í júní varaði Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) við því að um 70 prósent afganskra heimila næðu ekki að mæta grundvallar- og matarþörfum. Þá reið risastór jarðskjálfti yfir landið í júní þar sem yfir 1.000 mann létust og 1.500 særðust.

„Framtíðin er ekkert ýkja björt. Mér finnst leiðinlegt að geta ekki verið jákvæðari. Ef það væru stjórnvöld sem væru betur funkerandi og bæru hag þjóðar sinnar fyrir brjósti þá væru hlutirnir kannski aðeins bjartari,“ segir Brynja Dögg.