Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagðist ekki vita til þess að fólk hér á landi hafi greinst með alvarlega sjúkdóma á borð við heilaskaða, nýrnabilanir og annað í kjölfar Covid-19.

Læknar á Norður-Ítalíu og víða vöruðu nýlega við því að alvarlegir fylgikvillar Covid-19 greindust í auknum mæli meðal fólks sem upplifði aðeins væg einkenni sjúkdómsins.

Margir glíma enn við eftirstöðurnar

„Þetta er eitthvað sem fólk á eftir að skoða hér en við vitum samt sem áður að það eru margir sem eru enn að glíma við eftirstöður sjúkdómsins af einhverju tagi, jafnvel þó þeir hafi ekki veikst alvarlega og hafi ekki þurft að leggjast inn á sjúkrahús,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Það væri líkt og margt annað við þennan sjúkdóm sífellt að koma upp nýjar upplýsingar sem ekki væri vitað mikið um. „Það er verkefni framtíðarinnar að skoða þetta betur.“

Heilablóðfall, geðrof, mæða, svefnleysi, nýrnasjúkdómar, mænusýking, og síþreyta er meðal þess sem fólk á Norður-Ítalíu hefur þurft að glíma við eftir að hafa náð sér af COVID-19.

Hundruð Íslendinga enn með einkenni

Líkt og Fréttablaðið hefur fjallað um þjást hundruð Íslendinga einnig af langvarandi einkennum sjúkdómsins. Fyrrum sjúklingar ræddu á dögunum við blaðamann um þrálát einkenni á borð við  orkuleysi, skort á bragð- og lyktar­skyni, höfuð­verk, mæðu, einbeitingarskorti og vöðva­verki. 

Eftirköstin eru mismunandi eftir fólki og virðast ekki ráðast af veikindum, aldri eða heilsu. „Við höfum hitt stöku ein­stak­linga sem eru með þessi lang­vinnu ein­kenni mörgum vikum, jafn­vel mánuðum, eftir að þau veiktust og náðu bata af bráðu ein­kennunum,“ sagði Runólfur Páls­son, for­stöðu­maður á lyf­lækninga- og endur­hæfingar­þjónustu Land­spítalans.