Framsóknarfólk hugsar sér nú gott til glóðarinnar eftir velgengni í alþingiskosningunum og eygir möguleika á að endurreisa flokkinn í borgarmálunum.

Flokkurinn fékk engan mann kjörinn í síðustu borgarstjórnarkosningum. Meðal þeirra sem nefndir hafa verið sem líklegir frambjóðendur fyrir Framsókn eru Karl Garðarsson, lögfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, en hann birti grein í Fréttablaðinu í gær um lóðamál í Reykjavík. Þá hefur Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina, verið orðuð við framboð fyrir flokkinn en hún yfirgaf Framsókn skömmu eftir stofnun Miðflokksins en mun hafa ratað heim aftur.

Karl Garðarsson, lögfræðingur og fyrrverandi alþingismaður

Þá hefur Sigrún Elsa Smáradóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sterklega verið orðuð við framboð en hún dúkkaði upp á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir nýafstaðnar þingkosningar.

Sigrún Elsa Smáradóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Gefast ekki upp á að orða Björn Inga við framboð

Þótt Björn Ingi Hrafnsson hafi ítrekað haldið því fram að hann sé hættur í stjórnmálum gefast menn ekki upp á að orða hann við framboð. Hann veitti Fréttablaðinu ekki afgerandi svar en sagðist ekki vera í neinum framboðspælingum.

Framsóknarmenn á höfuðborgarsvæðinu binda vonir við að Hrannar Pétursson, aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, fallist á að leiða Framsóknarflokkinn í Reykjavík og Brynja Dan Þorgeirsdóttir hefur líka fengið töluvert af áskorunum samkvæmt heimildum blaðsins, þrátt fyrir að búa í Garðabænum.

Björn Ingi Hrafnsson

Valdi í Hjólakrafti kandídat

Þá er Þor­vald­ur Daní­els­son, eða Valdi í Hjólakrafti, eins og hann er gjarnan kallaður, oft nefndur sem kandídat fyrir Framsókn í Reykjavík. Hann var valinn Reyk­vík­ing­ur árs­ins 2020 fyrir ötult hjólreiðastarf með ungmennum.

Framsóknarfólk sem Fréttablaðið ræddi við bindur miklar vonir við næstu borgarstjórnarkosningar og áhrifafólk í flokknum segir stefnuna setta á að ná allavega fjórum borgarfulltrúum inn fyrir flokkinn. Stemningin á suðvesturhorninu hafi verið engu lík fyrir kosningarnar og nýtt og ungt fólk streymt í flokkinn.

Áherslan verði á að byggja ofan á það sem ráðherrar flokksins hafa unnið að, bæði Lilja Alfreðsdóttir í skólamálum og Ásmundur Einar Daðason í velferðarmálum, einkum fyrir börn. Þá binda þau sem Fréttablaðið ræddi við vonir við að formaðurinn setjist í veglegt innviðaráðuneyti með áhrifum sem skipt geti máli fyrir skipulags- og húsnæðismál í Reykjavík.