Þingmenn Framsóknarflokksins hafa verið í áberandi fæstum viðtölum í ljósvakamiðlum Ríkisútvarpsins það sem af er þessu kjörtímabili. Þetta kemur fram í samantekt menningar- og viðskiptaráðuneytisins við fyrirspurn Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um viðmælendur Ríkis­útvarpsins.

Algengt er að þingmenn hafi verið á bilinu 10 til 20 sinnum í viðtölum á kjörtímabilinu. Sá þingmaður sem sjaldnast hefur verið í viðtölum er Halla Signý Kristjánsdóttir, eða tvisvar. Einu sinni í sjónvarpi og einu sinni í útvarpi. Yngsti þingmaðurinn, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, hefur verið fjórum sinnum í viðtölum sem og Þórarinn Ingi Pétursson. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir hefur verið fimm sinnum, Jóhann Friðrik Friðriksson átta sinnum, sem og Ágúst Bjarni Garðarsson.

Einu þingmennirnir úr öðrum flokkum sem hafa verið í jafnfáum viðtölum eru Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins, sex sinnum, og Njáll Trausti Friðbertsson, Sjálfstæðisflokki, átta sinnum.

Eðli málsins samkvæmt eru ráðherrarnir í flestum viðtölum. Katrín Jakobsdóttir er langefst með 361, það er næstum viðtal á dag frá alþingiskosningum. Bjarni Benediktsson er með 226 viðtöl, Willum Þór Þórsson 150, Sigurður Ingi Jóhannsson 149, Jón Gunnarsson 142, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir 114, Lilja D. Alfreðsdóttir 98, Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Svandís Svavarsdóttir 90, Guðlaugur Þór Þórðarson 84, Ásmundur Einar Daðason 65 og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir 56 viðtölum.

Birgir Ármannsson þingforseti er með 88 viðtöl. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, er með 65 viðtöl, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn 61, Inga Sæland Flokki fólksins 49, Björn Leví Gunnarsson Pírötum 46 og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Miðflokki 21.