Yfirgnæfandi hluti Íslendinga, 73,7 prósent, er andvígur því að leyfa sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum. Tæp 55 prósent eru andvíg sölu á léttu áfengi og bjór. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.

Í sömu könnun kemur fram að einungis 15,3 prósent eru hlynnt sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum en um 35,8 prósent sölu á léttu áfengi og bjór. Stuðningur við sölu á léttu áfengi hefur aukist milli kannana hjá MMR en í febrúar í fyrra sögðust 33 prósent styðja slíka breytingu.

Könnun MMR leiðir í ljós að andstaða við sölu á sterku áfengi í verslunum eykst með auknum aldri. Þannig kváðust 56 prósent fólks á aldrinum 18 til 29 ára vera andvíg því, á meðan það hlutfall hjá fólki eldra 68 ára er 92 prósent.

Stuðningsmenn Framsóknarflokks eru algjörlega á móti sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum, eða 96 prósent. Andstaða var einnig yfirgnæfandi hjá stuðningsfólki Flokks fólksins, Vinstri grænna og Samfylkingar. Mestan stuðning við leyfi til sölu á sterku áfengi í verslunum er að finna hjá stuðningsfólki Viðreisnar, Pírata og Sjálfstæðisflokks. Stuðningurinn fer þó hvergi yfir 40 prósent en er mestur hjá stuðningsmönnum Pírata, 38 prósent.