„Dagurinn leggst bara mjög vel í mig. Það viðrar vel til breytinga í Reykjavík í dag,“ segir Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknarflokksins sem mætti á kjörstað með eiginkonu sinni Millu Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmanni heilbrigðisráðherra og nýfæddum syni þeirra eftir hádegi í dag.
„Þetta hátíðisdagur og við finnum bara fyrir skýru ákalli borgarbúa um að knýja fram breytingar í borginni,“ segir Einar og segir það gaman að sjá stuðninginn sem hann og flokkurinn fær í skoðunarkönnunum, þótt hann bindi ekki allar sínar vonir við þær.
„Borgarbúar líti svo á að það sé kominn tími til þess að menn vinni saman að þessum stóru áskorunum á næsta kjörtímabili. Fólkið horfir til þess að það sé trúverðugur flokkur sem vill breytingar og getur unnið þvert á við hið pólitíska litróf í borginni,“ segir Einar.

Ætlar þú að vaka og fylgjast með tölunum?
„Já ég ætla að vaka fram eftir og fylgjast með tölunum. Þetta byrjar á Eurovision svo byrjar kosningavaka, þetta er tvennt er svona það sem mér þykir skemmtilegast af öllu að horfa á í sjónvarpinu,“ segir Einar og telur í kvöld verði mikil sigurhátið og fjör, sama hvernig fer.
„Við gleðjumst yfir því að hafa sett mark okkar á borgarmálin og að kosningabaráttan var með jákvæðan blæ,“ segir hann.
Einar og Milla eignuðust nýverið son, verður hann með á kosningavökunni?
„Litli maðurinn fær nú að vera með svona í byrjun og svo ætlum við svona bara að sjá til. Þetta verður ekki löng kosninganótt hjá honum. en hann fær að vera með aðeins í byrjun,“ segir Einar.