Framsókn tapar fylgi en Viðreisn, Vinstri græn og Sósíalistaflokkurinn bæta við sig í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Stuðningur við ríkisstjórnina stendur í stað milli mánuða, í 49 prósentum.
Rösklega 15 prósent segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn færu kosningar til Alþings fram í dag, sem eru um tveimur prósentustigum færri en í síðustu mælingu. Tæplega 9 prósent segjast myndu kjósa Viðreisn og Vinstri græn og ríflega 5 prósent myndu kjósa Sósíalistaflokkinn.
Fylgi annarra flokka breytist lítið milli mánaða, eða um á bilinu 0 til 1,1 prósentustig. Liðlega 22 prósent segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 15 prósent Pírata, næstum 14 prósent Samfylkinguna, tæplega 7 prósent Flokk fólksins og rösklega 4 prósent Miðflokkinn.
Þá segjast rúmlega 10 prósent myndu skila auðu eða ekki kjósa. 9 prósent taka ekki afstöðu eða vilja ekki gefa hana upp.
