Valdimar Víðis­son, odd­viti Fram­sóknar­flokksins í Hafnar­firði, segir að hann muni hefja við­ræður við Sjálf­stæðis­flokkinn og Rósu Guð­bjarts­dóttur, odd­vita flokksins, um á­fram­haldandi meiri­hluta­sam­starf flokkanna í bænum.

Sam­­fylkingin hlaut 29 prósenta fylgi í Hafnar­­firði og fjóra menn kjörna en Sjálf­­stæðis­­flokkur fékk 30,7 prósent og einnig fjóra menn kjörna. Fram­­sókn er í lykil­­stöðu í Hafnar­­firði en flokkurinn fékk tvo menn kjörna og bætti við sig manni á meðan Sjálf­stæðis­flokkurinn tapaði manni. Vægi flokksins innan meiri­hluta­sam­starfsins er því meira núna.

Valdimar segir að hann og hans fólk hafi fundað í gær um stöðuna og að svo hafi hann átt ó­form­leg sam­töl við odd­vita annarra flokka.

„Staðan er þannig, eins og við sögðum í kosninga­bar­áttunni, að ef að meiri­hlutinn myndi halda velli þá myndum við byrja á því að ræða við sam­starfs­flokkinn okkar til fjögurra ára og við­ræður hefjast á næstu dögum,“ segir Valdimar og þau vinni nú að því að undir­búa það.

Skýrt merki að meirihlutinn hélt

Guð­mundur Árni Stefáns­son, odd­viti Sam­fylkingarinnar, lýsti því í gær að hann hefði haft sam­band við Valdimar til að ræða meiri­hluta­sam­starf.

„Hann hafði sam­band og lýsti yfir á­huga en ég gerði honum grein fyrir því að við myndum byrja á sam­talinu við meiri­hlutann því hann heldur. En ég er mjög með­vitaður um þann vilja Sam­fylkingar að koma að borðinu en við ætlum að byrja á meiri­hlutanum.“

Sam­fylkingin er að bæta mikið við sig. Er það eitt­hvað merki um vilja kjós­enda um breytingar? Tekurðu það til greina, þessa breyttu stöðu í bænum?

„Það er þannig að Sjálf­stæðis­flokkurinn hélt sínum prósentum en vegna reikni­reglunnar þá missa þau mann og við náum honum inn og meiri­hlutinn heldur velli. Vissu­lega er sigur Sam­fylkingarinnar líka stór eins og okkar en á móti eru skila­boðin líka eftir kosningarnar að meiri­hlutinn heldur velli og við byrjum því að ræða saman.“

Skipting atkvæða í Hafnarfirði

Bæjarstjórastóllinn ekki í forgangi

Að­spurður hvort að hann eigi von á því að það taki langan tíma eða hvort að línurnar séu skýrar segir Valdimar að það sem er breytt er þeirra staða og að þau muni ganga til borðsins með­vituð um það.

„Við erum með meira vægi. Við erum með tvo bæjar­full­trúa í stað þess að vera með einn og fylgis­aukningin er 70 prósent miðað við síðustu kosningar. Vissu­lega er breytt staða í við­ræðum í ljósi þess að við komum inn með meira vægi sem við auð­vitað vonumst til að hafi á­hrif og að við höfum meira að segja um mál­efnin. En við hefjum sam­talið og sjáum hvert það leiðir.“

Gerirðu kröfu um bæjar­stjóra­stólinn?

„það er ekki í for­gangi en vissu­lega hefur verið í okkar hópi ræddar ýmsar sviðs­myndir en ég fer ekki inn í sam­talið með þá kröfu,“ segir Valdimar og að hann eigi von á því að það komi fljótt í ljós þegar sam­talið hefst hvort að meiri­hluta­sam­starfið muni ganga upp næstu fjögur árin.