Framsókn kynnti á opnum fundi sínum í dag áherslur flokksins vegna þingkosninganna 25. september 2021.

„Meginstefið í öllum baráttumálum Framsóknar fyrir kosningarnar 25. september er fjárfesting í fólki. Það er í samræmi við þau megingildi Framsóknar sem einhvern tímann fyrir löngu voru meitluð í orðunum vinna, vöxtur, velferð. Öflugt velferðarkerfi, öflugt heilbrigðiskerfi grundvallast á öflugu atvinnulífi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, í ræðu sinni á kynningarfundi í kvöld.

60 þúsund fyrir öll börn á grunnskólaaldri

Í kosningastefnu flokksins er lögð áhersla á börn og barnafólk og er lagt til að hverju barni, frá sex ára aldri, fylgi 60 þúsund króna tómstundastyrkur og að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað í samstarfi við sveitarfélög.

Í stefnunni segir að flokkurinn vilji leita leiða til þess að brúa bilið með lengingu fæðingarorlofs og stuðla að því að börn fái leikskólapláss fyrr og tryggja styrki til foreldra sem ekki eru með börn hjá dagforeldri. Í stefnunni segir að ríkið verði að leiða samtalið við Samtaka íslenskra sveitarfélaga og ná samkomulagi um að brúa þetta bil, sem margir foreldrar kljást við í dag.

Þá segir í stefnunni að haldið verði áfram á þeirri braut sem hafi verið mörkuð á kjörtímabilinu í þágu barna og er þar vísað til, meðal annars, breytinga félags- og barnamálaráðherra á barnaverndarkerfinu. Þá segir að stytta eigi biðlista eftir greiningarúrræðum og að öll réttindi sem tengjast fullorðinsaldri verði virk við átján ára aldur.

Framsókn vill að börn komist fyrr á leikskóla.
Fréttablaðið/Vilhelm

Endurskipulagning á málefnum eldra fólks

Flokkurinn boðar endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks eftir þeirri fyrirmynd sem hefur verið sköpuð af félags- og barnamálaráðherra í málefnum barna.

„Allir eiga að geta elst með reisn og notið þjónustu heima hjá sér eins lengi og heilsa leyfir,“ segir í tilkynningu frá flokknum en meðal þess sem flokkurinn vill gera er að afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur, almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar.

„Framsókn er miðjuflokkur, og sé litið yfir sviðið þá virðumst við vera eini miðjuflokkurinn, miðjuflokkur sem vinnur að stefnumálum sínum með samvinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Það er þessi samvinnuhugsun sem hefur gert stór umbótamál að veruleika á því kjörtímabili sem er að ljúka. Stjórnmál snúast nefnilega ekki aðeins um að setja fram stefnu og stefnumál heldur líka vinnubrögð – og heilindi,“ sagði Sigurður Ingi að lokum á fundinum í dag.

Þrepaskipt tryggingargjald

Flokkurinn vill taka upp þrepaskipt tryggingargjald og lækka það gjald sem leggst á lítil og meðalstór fyrirtæki.

Framsókn vill stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfis í íslenskt samfélag og atvinnulíf og stíga stærri skref í orkuskiptum í samgöngum og flutningum á landi sjó og í lofti. Þá vilja þau stórefla nýsköpun í matvælaframleiðslu og landnýtingu, meðal annars með það að markmiði að auka kolefnisbindingu.

Í tilkynningu segir að Framsókn vilji styðja við hugverkaiðnað eins og lyfjaframleiðslu og líftækni, sókn í skapandi greinum með sérstöku ráðuneyti skapandi greina og menningar, hækkun á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og að unnið verði eftir nýrri kvikmyndastefnu.

Framsókn vill stokka upp kerfið þegar kemur að skipulags- og húsnæðismálum til að auka skilvirkni svo tryggt verði að framboð á lóðum til húsbygginga verði nægt á hverjum tíma. Flokkurinn vill einnig að hlutdeildarlán verði útvíkkuð þannig að það nái til fleiri hópa en nú er, til dæmis að eldra fólk og öryrkjar geti nýtt sér þau.

Framsókn telur mikilvægt að heilbrigðiskerfið sé heilbrigð blanda af opinberum rekstri og einkarekstri. Skapa þarf skýra framtíðarsýn með aðkomu heilbrigðisstétta og þeirra sem nota heilbrigðiskerfið.

Hægt er að kynna sér stefnuna hér.

Beint streymi var af kynningarfundinum sem er hægt að horfa á hér að neðan.