Framsýn á Húsavík hefur afturkallað samningumboð sem félagið hafði veitt Starfsgreinasambandinu. Þetta var ákveðið á fundi í kvöld. Félagið mun slást í för með Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness, Verkalýðsfélagi Grindavíkur og VR. Mbl.is greinir frá.

Starfsgreinasambandið sleit á mánudag kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, þegar ljóst var að Samtök atvinnulífsins hygðust ekki leggja fram nýtt tilboð.

Haft er eftir Aðalsteini Baldurssyni, formanni Framsýnar, að mikill vilji hafi komið fram á fundinum um að vinna með áðurnefndum félögum. Í tillögum Samtaka atvinnulífsins um vinnutímabreytingar felist bullandi kjaraskerðing fyrir launafólk. Um það sé félagið sammála áðurnefndum félögum og eigi það því samleið með hinum.