Formleg framsalsbeiðni vegna þriggja íslenskra ríkisborgara í Samherjamálinu hefur enn ekki borist íslenskum yfirvöldum. Dómsmálaráðherra Namibíu er sakaður um að tefja málið.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari hefur áður tjáð sig um enginn grundvöllur sé fyrir framsali þar sem ekki er til samningur milli Íslands og Namibíu um slíkt.

Málið tengist Fishrot-máli eða Fishcor og Namgomar- kyrrsetningarmáli í Namibíu og varðar átta ríkisborgara Namibíu og ellefu félög þeim tengd auk þriggja Íslendinga og fimm félaga í þeirra eigu.

Íslendingarnir eru Ingvar Júlíusson fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Kýpur og tveir fyrrverandi framkvæmdastjórara Samherja í Namibíu, Egill Helgi Árnason og Aðalsteinn Helgason. Þeim er gefið að sök að hafa tekið þátt í ætluðum mútum í staðinn fyrir makrílkvóta, peningaþvætti og fleiri brotum félagsins sem tengjast starfsemi þess í Namibíu.

Martha Imalwa, ríkissaksóknari Namibíu sækir málið en dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á framsalsmálum. Stjórnskipuð nefnd gegn spillingu í Namibíu (e. Anti-Curroption Commission eða ACC) hefur sakað dómsmálaráðherra landsins um aðgerðarleysi í Samherjamálinu. Fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins er meðal ákærða í málinu.

Íslandsdeild Transparency þrýstir á namibísk yfirvöld að grípa til aðgerða varðandi íslenska embættismenn sem hafa verið bendlaðir við spillingarmálið.

Samkvæmt nýrri opinberri tilkynningu frá dómsmálaráðuneyti Namibíu virðast þau ekki hafa reynt að fá Íslendingana framselda. Erna van der Merwe, fulltrúi ACC, segir þetta vekja óhug.

„Ráðuneytið virðist ekki hafa gert neina tilraun til að leggja fram framsalsbeiðnina,“ er haft eftir Ernu í namibíska fjölmiðlinum, The Namibian.