Frum­varp til fjár­auka­laga sem lagt var fram á Al­þingi í dag felur í sér að fjár­heimildir mál­efna­sviða og mála­flokka ríkisins verði um 14,8 milljörðum meiri á árinu 2019 en gert er ráð fyrir í fjár­lögum.

7,6 milljarðar króna fara í á­byrgðar­sjóð vegna at­vinnu­leysis­bóta og þá aukast út­gjöld vegna mál­efna fatlaðs fólks og aldraðra um 7,3 milljarða króna.

Í greinar­gerð frum­varpsins kemur fram að at­vinnu­leysi stefni í að verða 3,5 prósent á þessu ári saman­borið við 2,4 prósent árið 2018. Þetta megi að miklu leyti rekja til falls WOW air fyrr á árinu.

Þá verða greiðslur vegna fæðingar­or­lofs rúm­lega 1,1 milljarði hærri en gert var ráð fyrir. Aukninguna má rekja til þess að há­marks­greiðslur hafa hækkað frá fyrra ári auk þess sem for­eldrum sem taka fæðingar­or­lof hefur fjölgað um­fram for­sendur fjár­laga.

Þá vega ein­skiptis­út­gjöld vegna dóms Lands­réttar um ó­lög­mæti aftur­virkrar skerðingar á greiðslum til elli­líf­eyris­þega vegna greiðslna úr skyldu­bundnum at­vinnu­tengdum líf­eyris­sjóðum mestu í áður­nefndri hækkun uym 7,3 milljarða króna til mál­efna fatlaðs fólks og mál­efni aldraðra.

Einnig er verið að leið­rétta ör­orku­bætur aftur í tímann vegna á­lits um­boðs­manns Al­þingis varðandi á­hrif bú­setu­tíma er­lendis á rétt til ör­orku­líf­eyris. „Á­hrif af á­liti um­boðs­manns nema um 800 m.kr. á ár­inu 2019 en alls hafa 320 manns fengið leið­rétt­ingu það sem af er ári,“ seg­ir í grein­ar­­gerð frum­­varps­ins.

Þá er gert ráð fyrir tæp­lega 1,5 milljarða aukningu fram­laga vegna halla sjúkra­trygginga­liða á yfir­standandi ári og 790 milljónum vegna ó­fyrir­séðs við­bótar­kostnað sem Vega­gerðin þurfti að greiða vegna nýs Herjólfs.