Sá málaflokkur sem breytist mest í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í samanburði við fjárlög yfirstandandi árs, er þróunarsamvinna.

Framlög til utanríkismála aukast um 3,1 milljarð eða um 15 prósent, frá fjárlögum yfirstandandi árs. Hækkunin skýrist að mestu af auknum framlögum til þróunarsamvinnu sem aukast um 2,7 milljarða.

„Framlögin hreyfast með vergum þjóðartekjum sem eru að vaxa á milli ára auk þess sem útreikningur framlaga til málefnasviðsins hefur verið aðlagaður að reglum og tilmælum Þróunarsamvinnunefndar innan Efnahags- og framfarastofnunar,“ segir um breytinguna í fjárlagafrumvarpinu.

Tímabundnar aðgerðir renna sitt skeið

Sá málaefnasvið sem tekur mestum breytingum milli ára er í félags-, húsnæðis- og tryggingamálum en þar er dregið saman um tólf prósent. Breytingin skýrist nær alfarið af tímabundnum ráðstöfunum vegna heimsfaraldursins sem renna sitt skeið á enda en einnig af lækkandi atvinnuleysi.

Meira til heilbrigðismála minna til menntunar

Framlög til heilbrigðismála hækka um fimm prósent milli ára en framlög til mennta- og menningarmála lækka um 2,3 milljarða eða um tæp tvö prósent.

Hins vegar er lagt til að framlög til háskólastigsins verði aukin um 2,4 milljarða til að mæta fjölgun háskólanema vegna kórónuveirufaraldursins. Þar er meðtalin framlenging á 1,4 milljarða tímabundnu framlagi ársins 2021 í sama tilgangi.

Færri sækja um námslán

Samtals verður 3,2 milljörðum varið til að mæta fjölgun um rúmlega 3.000 háskólanema árið 2022. Þá er gert ráð fyrir að fjárveitingar til framhaldsskóla aukist um 445 milljarða tímabundið til tveggja ára

Á móti þessum hækkunum vegur 2,6 ma.kr. lækkun á framlagi vegna úrræðisins Nám er tækifæri sem var ein af mótvægisráðstöfunum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Auk þess lækka framlög til Menntasjóðs námsmanna og LÍN um 700 milljónir vegna færri umsækjenda um námslán.

Þá aukast framlög til verkefnisins Betri vinnutími um 2,1 milljarð vegna styttingar vinnuviku vaktavinnufólks.

Dregið saman í samgöngum

Útgjöld til samgöngu- og fjarskiptamála lækka um 9,1 milljarð eða um 15 prósent, en í frumvarpinu kemur fram að framlög til málaflokksins séu engu að síður töluvert hærri en í þarsíðasta fjárlagafrumvarpi þegar framlögin jukust um 25 prósent vegna þátttöku ríkissins í stórum samgönguverkefnum og fjárfestingaátaks sem ráðist var í vegna efnahagssamdrátts sem rekja má til kórónuveirufaraldursins.

Stærstu breytingarnar innan málefnasviðsins er að 2,6 milljarða framlag vegna breikkunar einbreiðra brúa fellur niður. Á móti kemur hins vegar aukið fjármagn verður sett í uppbyggingu Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar. Framlög til þessara verkefna nema einum og hálfum milljarði í frumvarpinu.

Nokkur helstu áhersluverkefni 2022

Í kynningu fjármálaráðherra á frumvarpinu í morgun eru dregin fram nokkur helstu áherslumál í frumvarpinu.

  • Framlög til loftslagsmála aukin um einn milljarð
  • 800 milljóna sérstök viðbótarhækkun á bætur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Um eitt prósent til viðbótar við almennar prósentuhækkanir þannig að bæturnar hækka alls um 5,6 prósent frá fjárlögum ársins 2021.
  • 540 milljónir vegna tvöföldunar á frítekjumarki atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum, úr 100.000kr. í 200.000.kr.
  • 10,4 milljarðar í endurgreiðslur rannsókna- og þróunarkostnaðar.
  • 5,2 milljarðar í byggingu hjúkrunarheimila.
  • 1,5 milljarðs fjárfesting í Stafrænu Íslandi.