Fram­lög til ný­sköpunar, rann­sókna og þekkingar­greina aukast um níu milljarða milli ára, eða um 54 prósent árið 2021 frá fjár­lögum ársins 2020. Út­gjöld til mála­flokksins hafa því aukist um 73 prósent frá árinu 2017.

„Ég trúi því að við getum lagt grunn að því að hér verði til verð­mæt og spennandi störf í fram­tíðinni og að landið okkar verði betur sam­keppnis­hæft við önnur lönd til lengri tíma litið,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra á upp­lýsinga­fundi um fjár­laga­frum­varp komandi árs.

Breytt starfs­um­hverfi

Á­ætluð fram­lög til ný­sköpunar­mála árið 2021 eru 25 milljarðar króna sem er lið­lega 5 milljarða hækkun saman­borið við á­ætluð út­gjöld yfir­standandi árs. Fjár­mála­ráð­herra sagði mikla á­herslu hafa verið lagða á ný­sköpun og rann­sóknir í tíð starfandi ríkis­stjórnar.

„Starfs­um­hverfi okkar er að breytast með tækni­byltingunni og við þurfum ein­fald­lega að fjár­festa bæði hjá hinu opin­bera og tryggja að það sé stuðningur við fyrir­tæki sem ætla sér aukna hluti á þessu sviði í fram­tíðinni.“

Hlutfallslega mest aukning hefur verið í framlögum til nýsköpunar milli ára.
Mynd/Stjórnarráðið

Ný­sköpun tengd far­aldrinum

Fram­lögin ná há­marki árið 2022 en fara lækkandi til ársins 2025. Þá verður fram­lag til ný­sköpunar engu að síður 19 prósent hærra en það var árið 2020.

Sér­stök á­hersla er lögð á eflingu ný­sköpunar í mót­vægis­að­gerðum stjórn­valda vegna far­aldurs kórónu­veirunnar. Þar af má nefna að endur­greiðslur til fyrir­tækja vegna rann­sókna- og þróunar­kostnaðar aukast um rúma þrjá milljarða króna auk þess sem fram­lög til sam­keppnis­sjóða aukast til muna.

„Við­brögðin við heims­far­aldri kórónu­veiru og af­leiðingum hennar á líf, heilsu og efna­hag heimsins sýna fram á veru­legan sveigjan­leika og um­bóta­getu opin­berra stofnana. Síðustu mánuðir hafa leitt í ljós styrk­leika í opin­berri starf­semi á sviðum þar sem miklar breytingar gerðust hratt og ó­vænt.“ Skýrara sé hvar megi gera betur.

Ný­sköpunar­vísi­tala Ís­lands lækkar

Í vikunni lagði Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ný­­sköpunar­ráð­herra, til frum­varp um að Ný­sköpunar­stöð Ís­lands yrði lögð niður og stofnaðir yrði Ný­­sköpunar­­garðar með á­herslu á stuðning við frum­­kvöðla og sprota­­fyrir­­­tæki.

Ís­land féll þó um eitt sæti á milli ára í Ný­sköpunar­vísi­tölu Al­þjóða­hug­verka­stofunnar og skipar nú 21. sætið. Vísi­talan, sem birt var í byrjun septem­ber, mælir árangur landa í ný­sköpun og ný­sköpunar­getu þjóðar­búa.

Framlög lækka frá árinu 2022.
Mynd/Stjórnarráðið