Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær og beindi hún spurningum sínum til Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra en ljóst varð að meira en helmingun yrði í framlögum til húsnæðisuppbyggingar á Alþingi í dag. Stofnframlög til húsnæðisuppbyggingar fara þannig úr 3,7 milljörðum niður í 1,7 milljarð á ári

Eins og fram hefur komið var skrifað undir nýjan rammasamning um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði frá 2023 til 2032 í september. Til stóð að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum. Því kallaði Kristrún eftir svörum við því hvers vegna niðurskurður væri niðurstaða ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum.

Niðurskurður þrátt fyrir metnað

„Það er stórfrétt af fjárlögum sem ég verð að taka upp í fyrirspurn til innviðaráðherra. Eftir öll fögru fyrirheitin eftir alla blaðamannafundina og eftir öll stóru orðin frá hæstvirtum ráðherrum Framsóknarflokksins þá er þetta niðurstaðan sem okkur var kynnt í morgun. Að ríkisstjórnin ætlar að helminga stofnframlög til húsnæðis uppbyggingar.

Reyndar rúmlega það því framlögin fara út 3,7 milljörðum króna niður í 1,7 milljarð. Þannig ætlar ríkistjórnin beinlínis að búa til stórfelldan samdrátt í uppbyggingu íbúða á næsta ári á Íslandi.

Ég ætlaði hreinlega ekki að trúa þessu en ég hef ekki tölu þeim skiptum þar sem ég hef komið hér í pontu og kallað eftir skýrum fjármögnuðum tillögum um alvöru aðgerðir í húsnæðismálum sem eru stærsta einstaka kjaramálið fyrir fólkið í landinu.“

Hún nefndi að Sigurður Ingi hefði sagt að ekki væri að marka fjármálaáætlun og svo fjárlög og að Sigurður Ingi hefði sagt að það yrði i síðasta lagi við aðra umræðu fjárlaga yrði komið með tillögur um að færa ákveðna fjármuni yfir til þess að fjármagna stofnframlögin í almenna íbúðakerfið.

Nú væri þó komin niðurstaða og það væri niðurskurður. „Enginn aukning í vaxtabætur og húsnæðisbætur. Þvílíkt innlegg í viðkvæma kjarasamninga og ég vil því spyrja innviðaráðherra, er þetta í alvöru talað öll framsóknarsóknin í húsnæðismálum,“ sagði Kristrún.

Ofmat á fólksfjölda

Sigurður Ingi svaraði þessu með því að hann þakkaði Kristrúnu fyrir að taka fyrirspurnina upp þar sem vanþekking hennar á málinu væri bersýnileg og mikil.

„Við höfum í langan tíma verið að reyna að bæta gagnaöflun á þessu sviði, smátt og smátt hefur okkur tekist það. Það sem hefur skýrst núna í haust er að það var ofmat á fólksfjölda hérna um einhverja tíu þúsund einstaklinga,“ sagði Sigurður Ingi.

„Það hefur komið í ljós að við erum að byggja fleiri íbúðir í ár en við höfum verið að gera á undanförnum árum. Það hefur líka komið í ljós að það er talsvert mikil þensla sem hefur valdið því að — eigum við að segja að aðilar hafa kannski síður farið af stað í sum verkefni en ella? Hugsanlega er það líka lóðaskortur,“ sagði Sigurður Ingi sem vísaði þá til stofnframlaganna „þar sem við höfum 2 milljarða til þess að spila með umfram það sem við gátum nýtt á þessu ári og tæpa tvo á næsta ári.“

Sigurður Ingi sagði einnig að skýrt væri að ekki ætti að leysa húsnæðismálin á þessu ári eða því næsta heldur væri þetta verkefni næstu ára

„Við hyggjumst fá heimild til þess að færa þessa tvo milljarða yfir og þannig verði um fjórir milljarðar til stofnframlaga á næsta ári, sem að mati HMS við þær aðstæður sem uppi eru, þær byggingar sem eru í gangi, þá þann stutta tíma sem við höfum til að byggja og gera samninga, dugi á næsta ári,“ sagði Sigurður Ingi sem sagðist einnig hlakka til samstarfsins við hæstvirtan þingmann um að ljúka því verki.

Skortur á félagslegum íbúðum

Kristrún benti á að það sem sérstaklega vantaði inn á húsnæðismarkaðinn væru félagslegar íbúðir

„Óháð því hvað er að gerast á venjulegum markaði fyrir íbúðir þá er þessum félagslegu íbúðum ekki að fjölga, þetta loforð er ekki koma inn. Þetta eru bara fleiri svikin loforð, líkt og eftir lífskjarasamningana þar sem úrbótum á leigukerfinu var lofað en ekkert kemur inn,“ sagði Kristrún um svör Sigurðar Inga.

Sigurður sagði þá að í fjárframlögum væru tillögur sem svöruðu öllum þeim kröfum sem Kristrún hefði kallað eftir. „Við höfum sagt að í varasjóði sé fjármagn vegna ársins 2023 sem við ætlum að veita í húsnæðismálin. Þar eru peningar, allt að tveir milljarðar, sem til að mynda verður hægt að nota í húsnæðisbætur, í vaxtabætur, í stuðning við fólk og fleiri slíka þætti — og standa þar inni,“ sagði Sigurður Ingi sem sagði að vissulega þyrfti að halda áfram uppbyggingu í landinu

„Við þurfum að halda áfram. Við þurfum að koma inn í fjármálaáætlun og við þurfum að byggja nægilega mikið af íbúðum á næstu árum. Það er einungis þannig sem við tökumst á við þennan vanda, hvort sem um er að ræða leiguhúsnæði eða húsnæði handa fólki sem minna hefur á milli handanna,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.