Framlög til menningar, lista, íþrótta- og menningarmála á næsta ári aukast um 1,4 milljarð króna að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum. Þetta kemur fram í nýju fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti á fundi í dag.

Heildarfjárheimild til menningarstofnana árið 2021 er 5.902,8 milljónir króna og hækkar um rúmar 313 milljónir á milli ára.

Þar af eru framlög til Hörpu, tónlistar og ráðstefnuhúss í Reykjavík, aukin um 150 milljónir króna til að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi. Markmiðið með auknu fjármagni er að bæta aðgengi að menningu og listum til að fleiri landsmenn fái notið þeirra.

Þá er fjárheimild vegna framkvæmda við menningarsal á Selfossi aukin tímabundið um rúmar 140 milljónir króna en framkvæmdirnar eru af hluti fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 kemur fram að meðal helstu markmiða stjórnvalda á sviði menningar og lista sé að jafna tækifæri til nýsköpunar í menningar- og listastarfsemi. Þá beri að stuðla að góðu aðgengi að menningu og listum og að lögð sé áhersla á barnamenningu.