Fjár­mála­ráð­herra lagði fram fjár­auka­frum­varp sitt fyrir árið 2021 í gær­kvöldi. Fram kemur í frum­varpinu að lang­stærstur hluti til­lagnanna snýr að verk­efnum sem tengjast heil­brigðis­málum og at­vinnu­leysi. Alls er lagt til að fram­lög til heil­brigðis­mála verði aukin um 22 milljarða.

Í frum­varpinu eru lagðar til ýmsar breytingar og óskað eftir auknu fjár­magni inn í heil­brigðis­kerfið á ýmsum stöðum. Í sjúkra­hús­þjónustu á að auka fjár­magn um nærri átta milljarða og við heil­brigðis­þjónustu utan sjúkra­húsa, eins og á heilsu­gæslu, á að bæta við um 6,6 milljörðum. Þá verða fjár­fram­lög aukin um rúma tvo milljarða í hjúkrunar- og endur­hæfingar­þjónustu og um nærri þrjá milljarða í fjár­lögum til lyfja og lækninga­vara.

Sjúkra­hús­þjónustu er skipt í þrennt í frum­varpinu, það er sér­hæfð sjúkra­hús­þjónusta, al­menn sjúkra­hús­þjónusta og svo er­lend sjúkra­hús­þjónusta.

Í um­fjöllun um aukninguna segir að ó­fyrir­séður kostnaður hafi fylgt Co­vid-19 heims­far­aldrinum og því hafi, til dæmis, launa­kostnaður aukist mikið en kalla þurfti nokkrum sinnum út bak­varðar­sveitir. Þá hafa stofnanir þurft að kaupa ýmsan sér­hæfðan búnað eins og hlífðar­búnað og á­höld til skimunar auk þess sem ræsting og kaup á hrein­lætis­vörum hefur aukist.

Þá er einnig verið að auka heimildir vegna verk­efna sem miða að því að styrkja heil­brigðis­kerfið til að vera betur búið til að takast á við heims­far­aldurinn og aðrar far­sóttir sem kunna að koma í fram­tíðinni. Hér er um að ræða opnun há­gæslu­rýma við Hring­braut og í Foss­vogi og opnun endur­hæfingar­rýma á Landa­koti. Í fjár­laga­frum­varpi fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir rekstrar­heimildum fyrir bæði þessi verk­efni.

Einnig er óskað eftir fjár­heimildum til að efla al­mennan tækja­kost beggja sjúkra­húsanna vegna CO­VID-19.

Í flokki heil­brigðis­þjónustu utan sjúkra­húsa er óskað eftir því að fjár­heimild verði um um 6,6 milljarða og þar af 790 milljónir til heilsu­gæslunnar. Ýmsar á­stæður eru raknar fyrir hækkuninni í frum­varpinu en sér­stak­lega er nefnt kostnaður vegna bólu­setningar og skimana á landa­mærum.

Í flokki um sér­fræði­þjónustu og hjúkrun er óskað eftir hækkun um 4,8 milljarða og þar vegur þyngst kostnaður við rekstur sótt­varna­hótela sem nema um 2,9 milljörðum.

Þá er óskað eftir um 100 milljónum auka­lega vegna ó­fyrir­séðs kostnaðar vegna Co­vid-sjúkra­flutninga.

Nánar er hægt að kynna sér málið hér á vef Al­þingis. Um­fjöllun um heil­brigðis­kerfið er á síðum 64 til 67.