Gert er ráð fyrir því að fjárframlög ríkisins til Þjóðkirkjunnar muni nema 3,85 milljörðum króna á næsta ári. Til samanburðar voru 3,73 milljarðar eyrnamerktir kirkjunni í fjárlögum yfirstandandi árs.

Þetta kemur fram í nýbirtu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar en þar er gert ráð fyrir að heildarframlög ríkissjóðs til trúmála nemi 7,87 milljörðum króna á næsta ári. Undir þann flokk falla einnig útgjöld vegna kirkjugarða og úthlutunar sóknargjalda til annarra lífsskoðunar- og trúfélaga.

Þá er áætlað að framlög til kirkjunnar standi í stað árin 2022 og 2023.

Greiðslur frá ríkinu taki mið af almennum launa- og verðlagsforsendum

Fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2021 til 2025 að skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum hafi fjölgað á síðustu árum sem og meðlimum þeirra.

Á sama tíma hafi meðlimum í Þjóðkirkjunni fækkað. Nýr viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar var undirritaður þann 6. september 2019.

Í fjármálaáætlun segir að þar hafi verið gerð sú meginbreyting að kirkjan taki sjálf við öllum starfsmönnum sínum og starfsmannamálum. Samkvæmt samkomulaginu muni því þær greiðslur sem kirkjan fái frá ríkinu taka breytingum í samræmi við almennar launa- og verðlagsforsendur sem liggi til grundvallar fjárlögum hvers árs.

Nýtt samkoumlag tryggi meira sjálfstæði

„Markmiðið með viðbótarsamningnum er að stórauka fjárhagslegt sjálfstæði þjóðkirkjunnar. Í samræmi við það eru ríki og kirkja sammála um að einfalda mjög allt lagaumhverfi og fyrirkomulag á þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði.“

Þá er samkomulagið sagt færa þjóðkirkjuna nær því að verða trúfélag sem beri sjálft ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag.

„Kirkjan nýtur enn stuðnings íslenska ríkisins líkt og kveðið er á um í stjórnarskrá lýðveldisins en fjarlægist það mjög að vera ríkisstofnun með þessum samningi. Fyrir liggja áform um að auka sjálfstæði kirkjunnar enn frekar og tryggja efnisatriði viðbótarsamkomulagsins með frumvarpi til laga um ný heildarlög um þjóðkirkjuna.“