Stjórnvöld fjölda Evrópuríkja tilkynntu um hertar sóttvarnaaðgerðir í gær vegna fjölgunar nýrra tilfella smits af COVID-19 víða um álfuna undanfarna daga.

Ítalir, sem fóru langverst út úr faraldrinum á fyrstu vikum hans snemma í vor, hafa framlengt neyðarástand í landinu til 15. október næstkomandi en um er að ræða töluverða skerðingu á persónulegu frelsi borgara landsins auk þess sem stjórnvöld hafa heimildir til að bregðast við með hvers kyns lokununum til að hamla útbreiðslunni.

Stjórnvöld í Frakklandi hafa hins vegar gefið út að ekki verði gripið aftur til lokana og hertra sóttvarna þrátt fyrir aukinn fjölda nýgreindra tilfella smits að undanförnu.

Bresk stjórnvöld tilkynntu í gær að fjöldi daga sem þeim sem finna fyrir einkennum, er gert að vera í sóttkví, fari úr sjö dögum í tíu.

Yfir 80 þúsund hafa sýkst af COVID-19 í Svíþjóð, en stjórnvöld þar vöktu heimsathygli fyrir sína frjálslyndu nálgun í sóttvörnum. Illa hefur tekist til en landið er með langflest tilfelli smits á öllum Norðurlöndunum. Næst á eftir þeim í fjölda tilfella eru Danir, þar sem tæp 14 þúsund tilfelli smits hafa verið greind. Önnur ríki Norðurlanda eru með undir tíu þúsund tilfelli smits.

Stjórnvöld í Svíþjóð mælast áfram til þess að fólk vinni sem mest heima en markmið þeirrar hvatningar er að létta álag á almenningssamgöngum og auka öryggi fyrir þá sem þurfa að mæta til vinnu. Tilmælin voru send út í Svíþjóð í gær en þess einnig getið að jákvæð teikn væru á lofti. Tilfellum nýsmits fari fækkandi og alvarlegum veikindum vegna faraldursins einnig. Hvorki var tilkynnt um breytingar í sóttvörnum í Noregi né Danmörku í gær.