Karlmaður sem er grunaður um að hafa ráðist á samstarfsmann sinn á byggingarsvæði á Seltjarnarnesi að morgni þjóðhátíðardagsins, 17. júní síðastliðinn, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald í annað sinn.

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn, staðfestir þetta í samtali við RÚV.

Héraðsdómur Reykjavíkur framlengdi gæsluvarðhald yfir manninum til 1. september næstkomandi á grundvelli almannahagsmuna.

Maðurinn er grunaður um að hafa ráðist á vinnufélaga sinn með haka og klaufhamri. Samstarfsmenn náðu að yfirbuga manninn og kalla eftir aðstoð lögreglu.