Blæjubílar hafa ekki átt uppá pallborðið hjá bílkaupendum í heiminum á síðustu árum, sala þeirra hefur hríðlækkað og gerðum þeirra hefur líka fækkað umtalsvert. Í sumar mun fækka um einn slíkan enn þar sem Opel mun hætta að framleiða Cascada blæjubílinn, en hann hefur fengist í Bandaríkjunum á undanförnum árum undir nafninu Buick Cascada. Þar átti hann að verða mun söluhærri bíll en raunin varð og Buick eyddi umtalsverðu auglýsingafé til að vekja athygli á bílnum. 

Alls seldust aðeins 17.000 Buick Cascada bílar á árunum þremur, 2016, 2017 og 2018 og seinni tvö árin minnkaði sala hans um 25% frá fyrra ári. Markaðssetningu hans er því nokkuð sjálfhætt. Buick umboð í Bandaríkjunum eiga talsvert magn af Cascada bílnum sem talið er að muni duga út árið, en umboðin geta lagt inn pantanir allt fram að framleiðslustöðvun hans í sumar. 

Buick merkið heyrir undir General Motors og þar á bæ eru nú aðeins tveir bílar eftir sem smíðaðir eru með blæju, þ.e. Chevrolet Camaro og Corvette. Opel, sem framleiðir Cascada bílinn tilheyrir nú frönsku PSA bílasamstæðunni en Opel var fram til ársins 2017 í eigu General Motors og samstarfið með Cascada bílinn er arfleifð frá þeim tíma sem Opel tilheyrði GM.