Framleiðsla á kókaíni hefur aldrei verið meiri á heimsvísu, en ræktun á kókaplöntum jókst um 35 prósent milli áranna 2020 og 2021. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. BBC greinir frá.
Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar dróst eftirspurn eftir kókaíni saman þegar næturklúbbum og börum var lokað vegna útgöngubanns og samkomutakmarkana á meðan á heimsfaraldri kórónaveiru stóð. Takmarkanirnar hafi orðið til þess að fíkniefnasalar hafi fundið sér nýjar leiðir til að koma efnunum til kaupenda sinna.
„Pakka og sendingaþjónusta jókst gríðarlega á heimsvísu á tímum Covid, þá sérstaklega þegar útgöngubann var í gildi og takmarkanir á farþegaflugi,“ segir í skýrslunni.
Þá kemur fram að færst hafi í aukana að fíkniefnasalar í löndum vesturhluta Afríku nýti rótgrónar alþjóðlega starfandi póstþjónustur og smærri verslanir til þess að smygla umtalsverðu magni af kókaíni til Evrópu og víðar, þar á meðal til Bretlands, en þar hefur veruleg aukning orðið á haldlagningu á kókaíni með hraðsendingum og póstsendingum.
Eftir sem áður eru Evrópa og Norður-Ameríka enn lang stærstu sölumarkaðirnir fyrir kókaín, en Suður- og Mið-Ameríka og Karabísku eyjarnar fylgja þeim fast á eftir.