Örn Pálmason er kominn aftur til Úkraínu en hann flúði landið í lok febrúar nokkrum dögum eftir innrás Rússa. Örn hefur starfað í Úkraínu síðan 2018 við framleiðslu á vörum úr endurnýttu timbri. Hann rekur verkstæði í vesturhluta landsins nálægt borginni Ivano-Frankivsk.
„Þegar það voru tvær vikur liðnar af stríðinu og það var komið í ljós hverjir af okkar starfsmönnum myndu fara í herinn og hverjir ekki þá var komin svona óþreyja í menn. Þeir vildu frekar vinna heldur en að sitja bara og fylgjast með hörmungum. Ég var til í að taka sénsinn með þeim og við settum þetta bara í gang,“ segir Örn.
Hann flaug frá Íslandi til Varsjár síðustu helgi og keyrði svo þaðan yfir til Úkraínu. Hann segir ferðalagið hafa gengið nokkuð greiðlega og aðeins tekið um klukkutíma að komast yfir landamærin.
„Þetta er orðið mjög breytt. Þegar ég yfirgaf landið nokkrum dögum eftir að stríðið byrjaði þá voru varðpóstar út um allt. Maður var stoppaður út um allt og tékkað á pappírum og maður sá hermenn út um allt. Núna sér maður miklu minna af þessu, það er búið að koma upp fullt af skotbyrgjum hérna en það eru ekki verðir,“ segir Örn og bætir við að hann sé þó enn stoppaður reglulega og beðinn um að sýna pappíra.

Mikið mannfall á báðum hliðum
Að sögn Arnar er mannfallið byrjað að bíta á Úkraínumönnum en ljóst er að mikið hefur mætt á úkraínska hernum eftir tæpa þrjá mánuði af linnulausum átökum á fjölda vígstöðva.
„En þetta fólk ber sig afskaplega vel. Það er mikill húmor í Úkraínumönnum en það kraumar alveg mikill harmur. Því nú eru byrjaðar að koma fréttir frá vígvellinum og það eru flestir einhvern veginn tengdir einhverjum sem eru fallnir.“
Úkraínski herinn birtir ekki opinberar tölur um mannfall en að sögn tímaritsins TIME er talið að Úkraínumenn hafi misst 10 prósent af herafla sínum, um 25.000 manns síðan í febrúar.
Breska varnarmálaráðuneytið telur Rússa hafa misst þriðjung af þeim herafla sem þeir sendu til Úkraínu en úkraínska varnarmálaráðuneytið segir Rússa hafa misst 27.900 manns.
Örn er nú búinn að ræsa vinnuvélarnar á verkstæði sínu aftur og byrjaður að framleiða vörur ásamt samstarfsfélögum sínum.
„Við erum nú að framleiða garðhúsgögn úr þessum eðal endurunna við sem við ætluðum að flytja til Íslands. En sumarið er nú svo stutt á Íslandi að væntanlega náum við ekki sumrinu þar. Þannig þau fara væntanlega niður til Hollands og Danmerkur,“ segir Örn og bætir við að hann ætli að reyna að senda gám til Íslands í næstu viku.

Listaverk úr stríðsgögnum
Spurður um hvort hann hafi ekkert íhugað að færa sig yfir í brotajárnið og nýta yfirgefin stríðstól Rússa í eitthvað uppbyggilegt segir hann:
„Það getur meira en verið, ég er alveg viss um það. Hér er hefð fyrir því að gera listaverk úr rússneskum stríðsgögnum. En það er rosalegur baráttuhugur í þessari þjóð og þeir eru alveg sannfærðir um það að þeir ætli að vinna Rússa, þetta er bara spurning um tíma.“
Örn segir Rússa ekki hafa sent sprengjur þangað sem hann er staddur í nokkurn tíma. Hann verður þó var við afleiðingar stríðsins á mörgum sviðum, engin götulýsing sé á nóttunni og útgöngubann eftir klukkan ellefu. Spurður hvort hann telji sig vera öruggan segir hann:
„Það er ekkert öruggt að fara inn í land þar sem það er stríð en ég tel það fyrir mig að það séu meiri líkur en minni að ég sé í skjóli.“