Fram­leið­endur sjón­varps­þáttanna Systra­banda hafna því að þættirnir séu byggðir á leik­riti Kristínar Ei­ríks­dóttur Hystory. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu sem fram­leiðslu­fyrir­tækið Sagafilm sendi frá sér í dag

Kristín Ei­ríks­dóttir flutti út­varps­pistil í Víð­sjá í síðustu viku þar sem hún lýsir því „eins­og hefði verið sparkað í magann á mér“ þegar hún frétti af til­komu þáttanna.

Fjöl­margir hafa bent á sam­eigin­leg líkindi með Systra­böndum og leik­riti Kristínar Hystory, sem var sett upp í Borgar­leik­húsinu árið 2015. Bæði verkin fjalla um vin­konur sem hittast aftur á full­orðins­aldri og neyðast til að gera upp of­beldis­verk sem þær frömdu gegn fjórðu stúlkunni þegar þær voru ung­lingar.

Í yfir­lýsingu Sagafilm segir meðal annars:

„Sjón­varps­þátta­röðin Systra­bönd er ekki byggð á leik­ritinu Hystory með neinum hætti. Höfundar Systra­banda nýttu sér það hvorki til stuðnings, inn­blásturs í sköpunar­ferli þáttanna né á nokkurn annan hátt. Þau líkindi sem bent hefur verið á með verkunum tveimur koma ein­göngu til af eðli­legri úr­vinnslu á á­þekku um­fjöllunar­efni.“

Kristín Ei­ríks­dóttir velti upp þeirri hug­mynd í út­varps­pistli sínum að Jóhann Ævar Gríms­son, einn hand­rits­höfunda Systra­banda, hefði hæg­lega getað séð leik­rit hennar en hann var sjálfur einn höfunda verksins Kennet­hs Mána sem sett var upp á fjölum Borgar­leik­hússins leik­árið 2014-2015.

Í yfir­lýsingunni er þessu hafnað og segir:

„Jóhann Ævar Gríms­son hóf hug­mynda­vinnu að Systra­böndum í mars 2013 en kveikjan var banda­rískt morð­mál frá 1992. Fyrstu gögn hug­mynda­vinnunnar og út­línur að verkinu eru dag­sett 18.3.2013 með sannan­legum og ó­vé­fengjan­legum hætti.“

Blaða­maður Vísis sagðist í síðustu viku hafa heimildir fyrir því að það stefni í dóms­mál vegna höfundar­réttar­stulds á Hystory.