Framleiðendur sjónvarpsþáttanna Systrabanda hafna því að þættirnir séu byggðir á leikriti Kristínar Eiríksdóttur Hystory. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem framleiðslufyrirtækið Sagafilm sendi frá sér í dag
Kristín Eiríksdóttir flutti útvarpspistil í Víðsjá í síðustu viku þar sem hún lýsir því „einsog hefði verið sparkað í magann á mér“ þegar hún frétti af tilkomu þáttanna.
Fjölmargir hafa bent á sameiginleg líkindi með Systraböndum og leikriti Kristínar Hystory, sem var sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2015. Bæði verkin fjalla um vinkonur sem hittast aftur á fullorðinsaldri og neyðast til að gera upp ofbeldisverk sem þær frömdu gegn fjórðu stúlkunni þegar þær voru unglingar.
Í yfirlýsingu Sagafilm segir meðal annars:
„Sjónvarpsþáttaröðin Systrabönd er ekki byggð á leikritinu Hystory með neinum hætti. Höfundar Systrabanda nýttu sér það hvorki til stuðnings, innblásturs í sköpunarferli þáttanna né á nokkurn annan hátt. Þau líkindi sem bent hefur verið á með verkunum tveimur koma eingöngu til af eðlilegri úrvinnslu á áþekku umfjöllunarefni.“
Kristín Eiríksdóttir velti upp þeirri hugmynd í útvarpspistli sínum að Jóhann Ævar Grímsson, einn handritshöfunda Systrabanda, hefði hæglega getað séð leikrit hennar en hann var sjálfur einn höfunda verksins Kenneths Mána sem sett var upp á fjölum Borgarleikhússins leikárið 2014-2015.
Í yfirlýsingunni er þessu hafnað og segir:
„Jóhann Ævar Grímsson hóf hugmyndavinnu að Systraböndum í mars 2013 en kveikjan var bandarískt morðmál frá 1992. Fyrstu gögn hugmyndavinnunnar og útlínur að verkinu eru dagsett 18.3.2013 með sannanlegum og óvéfengjanlegum hætti.“
Blaðamaður Vísis sagðist í síðustu viku hafa heimildir fyrir því að það stefni í dómsmál vegna höfundarréttarstulds á Hystory.