Menningarmálaráðuneytið hefur ekki hækkað fjárframlög til sjálfstæðra sviðslista í þrjú ár þrátt fyrir árlega hækkun framlags til Þjóðleikhússins.

Sjálfstæðir listahópar frumsýndu 72 prósent af nýjum íslenskum verkum á síðasta leikári en fengu einungis tæplega 8 prósent af fjárframlögum til sviðslista á síðasta leikári.

Misskipting fjármagns til listahópa er gríðarleg og Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðu Leikhúsanna, segir þekkingarleysi á starfsemi sjálfstæðra listahópa innan ráðuneytisins.

„Menningarmálaráðuneytið verður að hækka framlög til sjálfstæðrar sviðslista. Styrkur til sjálfstæðra atvinnuleikhópa stendur í stað þriðja árið í röð í 99 milljónum. Ef við fylgjum eðlilegri verðlagsþróun og launavísitöluhækkun frá árinu 2013, þá hefði framlagið í fyrra átt að vera 136 milljónir króna,“ segir Friðrik í samtali við Fréttablaðið.

„Sjálfstæðar sviðslistir eru að standa sig alveg jafn vel og opinberar stofnanir ríkisins og borgarinnar.“

Þekkingarleysi ráðherra á starfsemi sjálfstæðra listahópa

Eru sjálfstæðir leikhópar að taka meiri áhættu og stuðla frekar að framþróun listgreinarinnar miðað við ríkisstofnanir?

„Það er nú huglægt mat og ég er helst að skoða þær staðreyndir sem liggja fyrir. En vissulega er tilfinning sú varðandi framþróun í listunum að áhættan sé tekin á sjálfstæðu sviðunum,“ segir Friðrik og bendir á að sjálfstæðir hópar hafa verið áberandi í tilnefningu Grímuverðlaunanna á síðustu árum og hafa hlotið fjölda verðlauna.

. „Það virðist vera sinnuleysi gagnvart þessu eða jafnvel þekkingarleysi á starfsemi sjálfstæðra hópa innan ráðuneytisins.“

„Ég held að það sé þægilegt fyrir ráðuneytið að þurfa ekkert að hreyfa við þessum framlögum. Það virðist vera sinnuleysi gagnvart þessu eða jafnvel þekkingarleysi á starfsemi sjálfstæðra hópa innan ráðuneytisins,“ bendir Friðrik á.

„Stærsti hlutinn af fjármagninu, rúmur milljarður, fer til Þjóðleikhússins. Þetta er um 1,3 milljarðar sem fara í starfsemi Þjóðleikhússins og framlögin til þeirra hafa hækkað að meðaltali um 8 prósent á hverju ári. Reykjavíkurborg styður við leikfélag Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu um svipað fjármagn, rúman milljarð. Í tíð Lilju Alfreðsdóttur hefur þetta staðið í stað í þrjú ár.“

Sjálfstæðir hópar hafa verið áberandi á Grímuverðlaununum síðustu ár.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Mikið framboð af lærðum listamönnum

Friðrik bendir á að sjálfstæðu leikhúsin skemmtu 30 prósent af öllum leikhúsgestum á árunum 2009 til 2014 en þrátt fyrir það hafa stóru leikhúsin talsvert meira fé milli handanna en sjálfstæðu leikhúsin til að verja í auglýsingar.

Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið framleiða sýningar á stærri skala með þekktari titlum; Shakespeare verk, söngleiki, leikgerðir byggðar á íslenskum skáldsögum og nokkur ný íslensk verk. Þó er talsvert meira um nýsköpun hjá sjálfstæðum hópum en um 93 prósent af verkum sjálfstæðra listahópa eru ný íslensk verk.

„Ég held að flestir þeir sem starfa innan sjálfstæðu listasenunnar hafi miklu frekar áhuga á frumsköpun, að skapa eitthvað nýtt og þróa áfram listformið.“

Listaháskóli Íslands útskrifar 10 til 30 manns tvö ár í röð, með eins árs hléi inn á milli. Talsvert fleiri listamenn snúa aftur heim til Íslands eftir leiklistarnám í virtum stofnunum og leiklistarskólum í Bretlandi, Bandaríkjunum, Danmörku og víðar. Mikil gróska er í sjálfstæðu leiklistasenunni og mikið framboð er af lærðum listamönnum á Íslandi en lítill hluti þeirra fá fastráðningu hjá stóru leikhúsunum.

„Þarna er verið að dæla út hæfileikaríkum dönsurum, leikurum, sviðshöfundum og tónlistarfólki sem vilja koma verkum sínum á framfæri. Það gengur ekki að einungis tvær stofnanir, stýrt af tveimur manneskjum sem sitja í átta til tíu ár við stjórn, hafa úr þessum fjármunum að spila til að móta umhverfið. Tækifæri fyrir aðra verða að vera til staðar,“ segir Friðrik.

Sjálfstæðir listamenn gefa þriðjung af vinnu sinni

Hann segist ekki vilja skipta kökunni upp á ný með því að lækka framlag til Þjóðleikhússins og Borgarleikhússins. Þvert á móti vilji hann að stóru leikhúsin haldi áfram sínu góða starfi í að efla sviðslistir á Íslandi með því að kynna erlend leikrit og bjóða landsmönnum upp á klassísk sviðsverk, enda sé gott fyrir leikhúsgesti að hafa margt um að velja.

„Ég held að flestir þeir sem starfa innan sjálfstæðu listasenunnar hafi miklu frekar áhuga á frumsköpun, að skapa eitthvað nýtt og þróa áfram listformið. Það verður að gerast annars verður stöðnun,“ segir Friðrik.

„Það er mismunun í gangi. Þegar svo mikill aðstöðumunur er til staðar, þá neyðast sjálfstæðir listamenn til að eyða eigin fé í verk sín. Sjálfstæðir listamenn eru að gefa, varlega áætlað, þriðjung af vinnu sinni. Listamennirnir eru að skila af sér verkum með sömu gæði og sömu vinnu og stofnanirnar fyrir 30 prósent lægri laun. Mennta- og menningarmálaráðherra ber að leiðrétta það með því að gera betur við sjálfstæðar sviðslistir,“ segir Friðrik.