Reykja­víkur­borg gerir ráð fyrir að fram­kvæmdum ljúki við Foss­vogs­skóla haustið 2024. Þetta kemur fram í til­kynningu frá borginni.

Þar segir að stefnt sé að því að kennsla allra ár­ganga við skólann fari fram í Foss­vogi frá hausti árið 2023 en fram­kvæmdum verið ekki að fulli lokið fyrr en ári seinna.

Skóla­starf í Foss­vogs­skóla mun allt fara fram í Foss­vogs­dal næsta haust og munu nem­endur stunda nám í tveimur upp­gerðum byggingum, Austur­landi, og Vestur­landi, og að hluta til einnig í einingar­húsum á lóð skólans. Á­ætlað er að fram­kvæmdum við Megin­land ljúki haustið 2023.

Staða fram­kvæmda við upp­færslu á Foss­vogs­skóla var rædd á fundum með skóla­sam­fé­laginu í dag. Full­trúar skóla- og frí­stunda­sviðs og um­hverfis- og skipu­lags­sviðs á­samt full­trúa verk­fræði­stofunnar Eflu funduðu með starfs­fólki og skóla­ráði á tveimur fundum síð­degis.

Vinna við hönnun langt komin

Þar fóru Ámundi Brynjólfs­son skrif­stofu­stjóri fram­kvæmda og við­halds hjá Reykja­víkur­borg og Sylgja Sigur­jóns­dóttir hjá verk­fræði­stofunni Eflu yfir stöðu mála. Í til­kynningunni segir að vinna við hönnun sé langt komin. Gerð hafi verið út­tekt á inni­vist í skóla­byggingunum og hönnun á nýju loft­ræsti­kerfi og utan­húss­klæðningu.

Vinnu við aðra hönnun og rann­sóknir á byggingar­efni og öðru gengur að sögn vel þar sem unnið er í sam­starfi við Verkís, Eflu, og Helgu Gunnars­dóttur arki­tekt.

Einnig var haldinn opinn fundur fyrir for­eldra í dag þar sem staða verksins var kynnt og farið yfir fyrir­komu­lag á skóla­starfi á næstu misserum. Á fundinum sagði Sylgja að hönnunar­vinnan hefði tekið tíma en en verk­efna­t­eymið væri sam­mála hún myndi skila betri niður­stöðu til lengri tíma litið.

Upp­fært klukkan 21:41

Mis­tök voru gerð hjá Reykja­víkur­borg í frétta­til­kynningu sem send var klukkan 18:02. Þar sagði að á­ætlað væri að fram­kvæmdum yrði lokið að fullu við Foss­vogs­skóla haustið 2024 og allt skóla­starf yrði í Foss­vogi frá hausti 2023. Hið rétta er sam­kvæmt Evu Berg­þóru Guð­bergs­dóttur, teymis­stjóra sam­skipta­sviðs hjá Reykja­víkur­borg að fram­kvæmdum verður að fullu lokið haustið 2023 og skóla­starf verður allt í Foss­vogi frá haustinu 2022.

Hefur fyrir­sögn fréttarinnar verið breytt í sam­ræmi við það.