Verktaki mun hefjast handa eftir verslunarmannahelgi við fyrsta áfangann við að umbreyta Hlemmsvæðinu á Laugavegi. Kaflinn sem um ræðir liggur frá Mathöllinni á Hlemmi eða Laugavegi 105 við Hlemm og að Snorrabraut.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu hjá Reykjavíkurborg en það er Veitur og Reykjavíkurborg sem hafa umsjón með verkinu.

Verktakinn sem stendur að framkvæmdinni er Alma Verk og verður svæðinu lokað fyrir bílaumferð í vikunni eftir Verslunarmannahelgi. Unnið verður frá 8-18 á virkum dögum og frá 8-16 á laugardögum. Ekki verður unnið á sunnudögum.

Útlit svæðisins eins og það mun líta út að framkvæmdum loknum.
Mynd/Reykjavíkurborg

Framkvæmdirnar munu umbreyta svæðinu með gróðri, setsvæðum, hjólastæði og óformlegum leikrýmum. Núverandi fráveitulögn verður endurnýjuð með tvöföldu kerfi regnvatns- og skólps. Fyrirliggjandi heimæðar og niðurföll verða tengd nýja kerfinu auk nýrra svelgja í regnbeðum. Hluti hitaveitulagna í götustæði verða endurnýjaðar.

Það eru tillögur arkitektastofanna Mandaworks og DLD sem verið er nú að hrinda í framkvæmd en þær unnu hugmyndakeppni að nýjum Hlemmi fyrir nokkrum árum síðan.

Áætluð verklok á þessum áfanga sem snýst um lagnir og yfirborð eru um næstu áramót.