Framkvæmdir á fyrsta legg nýs almenningssamgöngukerfis í Reykjavík, Borgarlínu, munu hefjast árið 2021. Þetta sagði Bryndís Friðriksdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Vegagerðinni, á málþingi í Ráðhúsinu í dag.

„Við erum með skýra áherslu á almenningssamgöngur.“

Borgarlínan átti senuna á málþinginu Léttum á umferðinni sem fram fór í Ráðhúsinu í dag. Þrjú erindi á málþinginu fjölluðu með beinum hætti um Borgarlínuna og snerti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri jafnframt á henni í opnunarerindi sínu. „Við erum með skýra áherslu á almenningssamgöngur,“ sagði Dagur og bætti við að Borgarlínan væri hryggjarstykkið í almenningssamgöngum og samstaða væri meðal þátttakenda í verkefninu, sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, ríkisins og Vegagerðarinnar um að hefja hönnun og undirbúning framkvæmda að Borgarlínu.

Bryndís Friðriksdóttir fjallaði eins og áður segir um undirbúning og fyrsta áfanga Borgarlínunnar. Í erindi hennar kom m.a. fram að framkvæmdir við fyrsta áfanga Borgarlínu verði komnar á fullt skrið árið 2021, en það er 13 km leið með tengingu við mikilvægar skiptistöðvar. Bryndís sagði mikilvægt að láta Strætó og Borgarlínu myndu vinna vel saman og það samstarf væri þegar hafið.