Byggðaráð Múlaþings samþykkti að fela sveitarstjóra að afla fleiri upplýsinga sem varða viðbótarstyrk vegna tónlistarhátíðarinnar LungA.

Í skýrslu sem framkvæmdastýra LungA sendi til sveitarstjórnar Múlaþings kemur fram að áhrif Covid-19 séu að koma í bakið á hátíðinni í ár og að það séu reikningar upp á fimm milljónir í vanskilum. Það sé í raun hætt við því að hátíðin fari á hausinn.

Í skýrslunni kemur fram að LungA-tónlistarhátíðin velti um fjörutíu milljónum árlega í hefðbundnu árferði og að helmingur þeirrar upphæðar verði eftir í fjórðungnum. Um leið hafi hátíðin átt stóran hlut í því að koma Austurlandi og Seyðisfirði á kortið.

Covid-19 heimsfaraldurinn hafi hins vegar komið í veg fyrir sérstaka afmælishátíð árið 2020 sem hafi skilið eftir sig tíu milljóna tap.

Eftir að hafa tekist að standa straum af þeim kostnaði framan af sé nú komið að því að hátíðin finni fyrir tapi ársins 2020.

Fyrir vikið sé óskað eftir auknum Covid-19 styrk til að koma í veg fyrir að hátíðin fari á hausinn.