Framkvæmdastjórn SÁÁ segist slegin yfir þeirri stöðu sem upp er komin í yfirlýsingu sem samtökin sendu frá sér nú í morgun.
Í yfirlýsingunni segir meðal annars að starfsfólk samtakanna vinni af heilindum og fagmennsku og að það leggi sig fram á hverjum degi við að sinna skjólstæðingum, sem hafa leitað til þeirra eftir læknishjálp og aðstoð vegna fíknar.

„Í þeim krefjandi aðstæðum sem heimsfaraldri fylgdi, með tilheyrandi samkomutakmörkunum, var leitað allra leiða til að halda uppi lögbundinni og nauðsynlegri þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Það eru því mikil vonbrigði að eftirlitsdeild SÍ skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið staðið rétt að málum og kært SÁÁ til embættis héraðssaksóknara,“ segir jafnframt í yfirlýsingu samtakanna.

Greint hefur verið frá því að eftirlitsnefnd Sjúkratrygginga Íslands sem hafði samtökin til skoðunar frá upphafi árs 2020 hafi í lokaniðurstöðu sinni gert alvarlegar athugasemdir við þúsundir reikninga frá samtökunum og að málið sé komið inn á borð Landlæknis. Þá krefja Sjúkratryggingar SÁÁ um 174 milljón króna endurgreiðslu.

Kalla eftir samráðsvettvangi

Framkvæmdastjórn SÁÁ segist, í yfirlýsingu sinni, harma þann farveg sem málið er komið í. Af hálfu samtakanna hafi veirð reynt að skýra frá því hvernig verklagi var háttað en að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra skýringa.

Þá segir jafnframt að framkvæmdastjórn hafi lengi kallað eftir samráðsvettvangi SÁÁ og SÍ, eins og skýrt sé kveðið á um í samningi.

Þá hafi stjórnin einnig kallað eftir leiðbeiningum eða lausn svo hægt sé að veita lögbundna og nauðsynlega þjónustu við þær krefjandi aðstæður sem samkomutakmarkanir eru.

„Því miður hefur ekki verið brugðist við þeim beiðnum. Ákall um samráðsvettvang og leiðbeiningar er ítrekað, svo hægt verði að koma í veg fyrir að staða eins og þessi komi upp í framtíðinni.“

Á von á leiðréttingu

Einar Hermansson, formaður SÁÁ, sagði í samtali við Fréttablaðið að hann væri bjartsýnn og ætti von á að málið yrði leiðrétt.

Spurður út í athugasemdir eftirlitsnefndar Sjúkratrygginga segir Einar málið mjög sérstakt. Verið sé að refsta samtökunum fyrir það að reyna veita sem besta þjónustu á Covid tímum þegar takmarkanir voru sem mestar.

Einar segir hugsanlegt að einhver símtöl hafi verið ranglega skráð, „við erum ekkert að útiloka það. En við erum ekkert að tala um þúsundir símtala eða hundruði, við erum að tala um einhver tíu símtala eða eitthvað slíkt.“