Á stjórnar­fundi Sorpu bs. í dag var skýrsla Innri endur­skoðunar Reykja­víkur­borgar um fram­kvæmda­kostnað vegna byggingar gas-og jarð­gerðar­stöðvar í Álfs­nesi kynnt. Í til­kynningu frá stjórn Sorpu kemur fram að sam­þykkt hafi verið að af­þakka vinnu­fram­lag fram­kvæmda­stjóra fé­lagsins, Björns H. Hall­dórs­sonar, á meðan mál hans er til með­ferðar innan stjórnar.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá í októ­ber síðast­liðnum kom meðal annars fram í minnis­blaði sem lagt var fram á fundi Sorpu við til­efnið að kost naður vegna fjár­­festinga í Álfs­nesi séu „um­­tals­vert hærri“ en gert var ráð fyrir í sam­þykktri á­ætlun. Var fram­úr­keyrslan 1,4 milljarðar króna.

Í til­kynningu frá stjórninni kemur fram að skýrslan hafi verið af­hent stjórn Sorpu þann 30. desember síðast­liðinn.

„Þann sama dag var fram­kvæmda­stjóra Sorpu einnig af­hent ein­tak af skýrslunni og þann 6. janúar sl. var honum gefinn frestur til að skila til stjórnar and­mælum sínum og at­huga­semdum. Út­tektin var tekin til efnis­legrar með­ferðar á stjórnar­fundi í dag og í kjöl­farið sett á vef Sorpu þar sem hún er öllum að­gengi­leg. Á fundinum var sam­þykkt að af­þakka vinnu­fram­lag fram­kvæmda­stjóra fé­lagsins á meðan mál hans er til með­ferðar innan stjórnar.“

Þá kemur fram í til­kynningunni að stjórnin muni á næstu mánuðum rýna efni út­tektarinnar og leita leiða til að efla yfir­sýn, stjórnar­hætti og eftir­lits­þætti fé­lagsins í sam­ráði við eig­endur sína. Fé­lagið sé rekið sem byggða­sam­lag sex sveitar­fé­laga á höfuð­borgar­svæðinu.

„For­svars­menn fé­lagsins munu ekki tjá sig um efni skýrslunnar eða frekari við­brögð við henni á meðan and­mæla­frestur fram­kvæmda­stjórans er í gildi og stjórninni hefur gefist tími til að gaum­gæfa at­huga­semdir hans.“

Hér má sjá skýrsluna í heild sinni.

IE19090002 SORPA stjórnarhættir áætlunargerð og GAJA_endanleg.pdf