Nem­endur fram­halds­skóla eru ekki lengur skráðir sam­kvæmt kyni. Nú geta þeir valið eigið for­nafn inn á upplýsingakerfi nemenda, Innu. Átta forn­öfn eru í boði; hann, hún, hán, það, þau, hín, héð og hé.

Helga Jóhanns­dóttir, kon­rektor Mennta­skólans við Hamra­hlíð, segir í fyrsta sinn sem þetta fyrir­komu­lag sé notað og það sé al­farið frá nem­endum komið. Helga segir að nú sé einungis í boði að velja eitt for­nafn en eftir á­bendingu nem­enda séu breytingar í ferli sem geri nem­endum kleift að velja fleiri en eitt. „Þá geta þau valið eins mörg og þau telja sig þurfa.“

Nem­endur séu að nýta skráninguna vel, ekki ein­göngu þeir sem kjósa önnur forn­öfn en búist sé við. „Þetta er svona stuðnings­yfir­lýsing svo­lítið. Ef allir eru að gera þetta þá ertu ekkert öðru­vísi en aðrir,“ segir Helga.

Helga segir nemendur ánægða með breytinguna.
Mynd/aðsend

Steinn Jóhanns­son, rektor skólans, segir skráninguna já­kvæða breytingu á starfinu. Nú geti kennarar séð hvernig nem­endur skil­greina sig og það auð­veldi þeim sam­skiptin. Þá séu dæmi um að kennarar noti sín forn­öfn í tölvu­pósts­sam­skiptum.

„Það hefur aldrei verið neitt sér­stakt vanda­mál að skil­greina sig með öðrum hætti í Mennta­skólanum á Akur­eyri,“ segir Jón Már Héðins­son skóla­meistari. „Það er bara vel að nú sé hægt að gera þetta með form­legum hætti,“ segir hann og bætir við að í langan tíma hafi mennta­skólinn haldið vel utan um nem­endur sem hafa skil­greint sig með öðrum hætti en hefð­bundið hefur verið.

Jón Már segir skráningarkerfið svo nýtilkomið að ekki sé komin reynsla á það hjá þeim.