Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að Hildur Björnsdóttir sé vilhallari þéttingu byggðar og almenningssamgöngum en Eyþór Arnalds. Spennandi verði að sjá hvort áherslur Hildar njóti víðtæks stuðnings meðal inngróinna sjálfstæðismanna í borginni.

Eyþór tilkynnti í vikunni að hann væri hættur við að bjóða sig fram oddviti. Hildur Björnsdóttir er því sem stendur eina oddvitaefni flokksins. Í dag birti Fréttablaðið nýja skoðanakönnun sem sýnir að meirihlutinn í borginni heldur velli en naumlega þó. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi flokka í Reykjavík eins og hefð er fyrir.

Helst deilt um skipulag

Ólafur Þ. Harðarson segir að helstu ágreiningsmál í borgarpólitíkinni undanfarið hafi snúist um skipulag. Annars vegar séu lífseigar gamlar hugmyndir um bílaborgina Reykjavík og hins vegar hafi komið breyttar áherslur um þéttingu byggðar og almenningssamgöngur í takt við þróun í nágrannalöndum.

Sjálfstæðisflokkurinn hafi þverklofnað í þessum málum á árum áður. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum oddviti í borginni, hafi verið talsmaður breytinga sem og Gísli Marteinn síðar. Dagur B. Eggertsson hafi svo orðið öflugur talsmaður hins nýja málstaðar.

„Þessi þrjú urðu samskipa í þessu máli en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafði verið á gömlu línuni. Það varð sem sagt kynslóðamunur innan flokksins og það er áhugavert að Eyþór Arnalds var hallari undir gömlu sjónarmiðin, áhersla hans var nær gamla módelinu en hjá Hildi Björnsdóttur,“ segir Ólafur.

Fær Hildur mótframboð?

Ólafur bætir við: „Í raun er Hildur sammála hugsun núverandi meirihluta þótt hún geri auðvitað ágreining um sumt. Fær Hildur mótframboð innan flokksins frá einhverjum sem er nær gamla módelinu?“

Ólafur segir að í ljósi þessa gæti það orðið akkílesarhæll Hildar ef þeir sjálfstæðismenn sem hallist helst að gamla módelinu fari frá Sjálfstæðisflokknum yfir í Flokk fólksins eða Miðflokkinn.

„Þeir flokkar munu væntanlega áfram hamra á andstöðu við Borgarlínu og þéttingu byggðar.“