Svona gera menn einfaldlega ekki,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, um framgöngu sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja gegn fjölmiðlamönnum auk afskipta þess af prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og formannskjöri í Blaðamannafélagi Íslands.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vísaði í fréttaflutning Stundarinnar og Kjarnans þar sem birt eru samskipti svokallaðrar „skæruliðasveitar“ Samherja. Í sveitinni eru þau Þorbjörn Þórðarson, almannatengill og lögmaður, Arna Bryndís Baldvins McClure, lögmaður Samherja, og Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja.

Óboðleg framganga

Aðspurð hvort hún telji lýðræðinu ógnað af vinnubrögðum Samherja sagði Katrín að framganga fyrirtækisins væri óboðleg, óeðlileg og ætti ekki að líðast í lýðræðissamfélagi. „Þannig er það. Við þurfum að átta okkur á því að aðilar sem eru í forystu fyrir jafn stórt fyrirtæki og þarna er um að ræða bera ábyrgð gagnvart samfélagi sínu og þetta er ekki að bera ábyrgð gagnvart samfélaginu,“ sagði Katrín.

Samherji hefur ekki viljað tjá sig um málið á grundvelli þess að gögnunum hafi verið stolið úr tölvu Páls og það verið tilkynnt til lögreglu. Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, staðfesti að síma Páls hefði verið stolið þegar Páll var fluttur á sjúkrahús, fyrst á Akureyri og síðar í Reykjavík. Óvíst sé hvar símanum var stolið.

Hvernig sem gagnanna var aflað taldi lögmaður sem Fréttablaðið ræddi við ekki að Stundinni eða Kjarnanum yrði gerð nein refsing fyrir birtingu frétta upp úr þeim. Benti hann á fordæmi úr hæstaréttardómi þar sem ekki var dæmd refsing fyrir fréttaflutning upp úr gögnum sem aflað var með ólögmætum hætti. Var þar talið að birting fréttanna væri réttlætanleg þar sem um væri að ræða „efni, sem ætti erindi til almennings og varðaði mál, sem miklar deilur hefðu staðið um í þjóðfélaginu“.

Aðspurður taldi lögmaðurinn að áform Samherja um að koma í veg fyrir að Jóhannes Stefánsson bæri vitni gegn fyrirtækinu í Namibíu kynni að brjóta gegn íslenskum lögum. Samkvæmt samskiptum sem Stundin birti voru áform uppi um að kæra Jóhannes fyrir þjófnað í Namibíu til að koma í veg fyrir að hann mætti bera vitni í mútumáli gegn fyrirtækinu. Benti hann á að samkvæmt almennum hegningarlögum er refsivert að beita annan mann „ólögmætri nauðung eða hótun“ vegna skýrslugjafar hans hjá lögreglu eða fyrir dómi. Jafnframt kynnu áformin að brjóta gegn alþjóðlegri og íslenskri stjórnskipunarreglu sem gerir ráð fyrir rétti til réttlátrar málsmeðferðar.

Páll hefði tvívegis leitað til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Stundin greindi frá því í gær að Páll hefði tvívegis leitað til Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Annars vegar til að spyrja ráða um tölvupóst sem hann fékk fyrir mistök frá eiginmanni Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, og hins vegar þegar Páll hugðist beita sér gegn því að Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, yrði kjörinn í 1. sæti í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi.

Kristján Þór gaf ekki kost á viðtali í gær.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Kristján Þór út í Samherja í óundirbúnum fyrirspurnum í gær. Kristján Þór sagði að sér þætti eðlilegt að Samherji gerði hreint fyrir sínum dyrum. Hann sagðist hafa áhyggjur af því hvernig fyrirtæki blönduðu sér í stjórnmálabaráttu einstakra stjórnmálaflokka og verkalýðsfélaga. „Einstaklingum er þetta að sjálfsögðu fullkomlega heimilt hvar og hvenær sem þeir kjósa og vilja. En ef fyrirtæki taka með einbeittum hætti ákvörðun um að fara að beita sér með slíkum hætti er það að allra mati ekki ásættanlegt,“ sagði Kristján Þór.