Forsvarsmenn íslenskra fjölmiðla er gramt yfir hækkun framlaga til Ríkisútvarpsins, en framlög til RÚV hækka um tæpar 540 milljónir á milli ára. „RÚV tekur mikið súrefni frá einkareknum fjölmiðlum,“ segir ritstjóri Kjarnans.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að framlög til Ríkisútvarpsins hækki um tæpar tæpar 537 milljónir á milli ára samkvæmt fjárlögum ársins 2019. Jafnframt er boðuð breyting á fjölmiðlalögum, en drög að þeim verða kynnt á blaðamannafundi sem til hefur verið boðað á morgun.

Ekki er minnst á veru RÚV á íslenskum auglýsingamarkaði, en tekjur RÚV af auglýsingasölu voru um 2 milljarðar á síðasta ári. Framganga Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði hefur verið gagnrýnd að undanförnu, sér í lagi eftir heimsmeistaramót karla í fótbolta sem fór fram í Rússlandi í sumar. RÚV hafði einkarétt á sýningu fótboltaleikjanna, og þurftu fyrirtæki að kaupa minnst 10 milljón króna auglýsingapakka til að komast að á besta stað fyrir auglýsingar.

Fréttablaðið falaðist eftir viðbrögðum útgefanda og forsvarsmanna helstu fjölmiðla á Íslandi, og óhætt að segja að þeir taki í svipaðan streng.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir það bagalegt ef engin breyting verði á fjölmiðlahverfinu önnur en hækkun framlaga RÚV. „Í ljósi yfirlýsinga frá stjórnmálamönnum hélt ég að það væri samstaða um að staða fjölmiðla væri þess eðlis að það ætti að bregðast við. RÚV tekur mikið súrefni frá einkareknum fjölmiðlum,“ segir Þórður í samtali við Fréttablaðið. „Það verður gaman að sjá hvernig tillögurnar verða á morgun.“

Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi Fréttablaðsins, segir að framganga Ríkisútvarpsins gegn frjálsri fjölmiðlun sé óboðleg og hafi fengið að viðgangast allt of lengi. „Þrátt fyrir vinnubrögð af þessu tagi datt RÚV í lukkupottinn í dag - fær í viðbót frá skattgreiðendum í nýja fjárlagafrumvarpinu um rösklega 530 milljónir, hækkar um 12,8 prósent frá fyrra ári og hefur því 4,7 milljarða forskot á einkareknu miðlana.  Því til viðbótar aflar miðillinn rúmlega tveggja milljarða með auglýsingasölu,“ segir Kristín. „Skattgreiðendur borga brúsann.  Þeir hafa ekkert val um að segja RÚV upp.  Á hverju ári renna þessar hækkanir í gegnum ríkisstjórnina og aldrei virðist gerð krafa um hagræðingu og aldrei virðist spurt, hvort ekki sé nóg komið? Ég skal taka að mér að reka RÚV fyrir helminginn af þessu fé. Og ég lofa að þess mun ekki sjást merki í dagskránni,“ bætir hún við.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Hringbrautar, segir einkarekna fjölmiðla eiga í vök að verjast vegna veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Hann segist þó hafa fulla trú á menntamálaráðherra og horfir björtum augum fram á veginn í væntanlegri endurskoðun á fjölmiðlalögum. „Það vekur vissulega athygli að enn sé verið að auka forskot RÚV, en ég hef fulla trú á menntamálaráðherra. Ég vona þó að gripið verði til almennra aðgerða til að bæta stöðu frjálsra fjölmiðla, frekar en sértækra,“ segir Sigmundur í samtali við Fréttablaðið.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Símanum, vonar að hækkun RÚV á fjárlögum boði minnkandi umsvif á auglýsingamarkaði. „Einkareknir fjölmiðlar bíða mjög spenntir eftir aðgerðum til að bregðast við þessari yfirburðastöðu RÚV. Ég vona innilega að þessi hækkun á fjárlögum boði minnkandi umsvif RÚV á auglýsingamarkaði,“ segir Magnús. „Ég get ekki ímyndað mér að ætlunin sé bara að þenja út RÚV miðað við hvernig staðan er núna.“