Sami maðurinn framdi þrjú vopnuð rán á sólar­hring áður en hann var hand­tekinn með að­stoð sér­sveitarinnar í dag. Maðurinn var einnig hand­tekinn í gær eftir að hafa rænt verslun í mið­bænum með hníf.

Jóhann Karl Þóris­son að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn stað­festir þetta við mbl.is. Frétta­blaðið náði ekki tali af lög­reglu­þjóninum vegna málsins. Maðurinn var látinn laus úr haldi í gær og framdi svo vopnað rán í Kram­búðinni í Máva­hlíð í morgun.

Lög­reglan grunaði sterk­lega að um væri að ræða sama mann og hand­tekinn var á Austur­velli í gær. Lög­reglunni barst svo til­kynning um vopnað rán við Pylsu­vagninn í mið­bænum síð­degis og var sér­sveitin kölluð út til að­stoðar lög­reglunni.

Maðurinn var hand­tekinn og hefur nú verið færður til yfir­heyrslu. Jóhann segir að ekki sé úti­lokað að farið verði fram á gæslu­varð­hald. Auð­sjáan­lega gangi ekki að leyfa manninum að ganga frjálsum.