Tölu­vert var um að vera hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu í gær­kvöldi og gærnótt.

Tveir menn voru hand­teknir á öðrum tímanum í nótt í Kópa­vogi eftir líkams­á­rás og átti annar þeirra að vera í sótt­kví. Mennirnir voru hand­teknir og vistaðir í fanga­geymslu lög­reglu fyrir rann­sókn málsins.

Þá voru aðrir tveir menn í annar­legu á­standi hand­teknir Kópa­vogi um sjö­leytið í gær­kvöldi grunaðir um líkams­á­rás. Mennirnir fengu að­hlynningu á Bráða­deild og voru svo vistaðir í fanga­geymslu lög­reglu vegna rann­sóknar málsins.

Maður sem var ofur­ölvi var hand­tekinn í mið­bæ Reykja­víkur um tvö­leytið í nótt. Maðurinn neitaði að gefa upp kenni­tölu, fór ekki að fyrir­mælum lög­reglu og hafði í hótunum við lög­reglu­menn. Sökum á­stands var hann vistaður í fanga­geymslu lög­reglu yfir nóttina.

Maður í annar­legu á­standi var hand­tekinn á veitinga­stað í Reykja­vík um sex­leytið í gær­kvöldi. Maðurinn var búinn að valda skemmdum á staðnum og var hann vistaður í fanga­geymslu lög­reglu sökum á­stands.

Til­kynnt var um líkams­á­rás við Hval­eyrar­vatn á tólfta tímanum í gær­kvöldi. Hópur ungra manna með bar­efli var sagður hafa ráðist á ung­linga sem þar voru. Ekki er vitað um meiðsl og var málið af­greitt með að­komu for­eldra.

Til­kynnt var um slys í Laugar­dals­laug um átta­leytið í gær­kvöldi. Kona hafði dottið og meiðist á hendi. Hún var flutt með sjúkra­bíl til að­hlynningar á Bráða­deild.

Til­kynnt var um eigna­spjöll á bílum á tveimur stöðum í Reykja­vík í gær­kvöldi. Annars vegar í bíla­kjallara þar sem búið var að brjóta hliðar­rúður í tveimur bif­reiðum og hins vegar í mið­bænum þar sem hafði verið brotið aftur­rúðu í bíl sem lagður var í bíla­stæði.

Þá voru einnig þrír öku­menn stöðvaðir vegna gruns um ölvunar­akstur eða akstur á öku­réttinda. Einn öku­mannanna hafði verið stöðvaður átta sinnum áður vegna aksturs með út­runnin öku­réttindi.