Af þeim 586 málum sem hafa verið munnlega flutt og dæmd í Landsrétti hafa vitni aðeins verið leidd fyrir dóm í 129 málum. Í 457 málum hafa hins vegar engar slíkar skýrslur verið teknar af vitnum. Í sakamálum er gjarnan látið duga að spila upptökur af framburði vitna, gefnum í héraðsdómi. Þetta kemur fram í svari Landsréttar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Meðal helstu markmiða við upptöku nýs áfrýjunardómstóls er bein sönnunarfærsla á áfrýjunarstigi í sakamálum en Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp nokkra áfellisdóma gegn íslenska ríkinu vegna ófullnægjandi mannréttindaverndar í tengslum við áfrýjun bæði sakamála og einkamála.

Í ársskýrslu dómstólanna fyrir síðasta ár segir að vegna þessarar breytingar á áfrýjunarstigi sé málsmeðferðin tímafrekari fyrir Landsrétti en hún var í Hæstarétti þar sem bein sönnunarfærsla fór ekki fram og engir vitnisburðir teknir. Áfrýjun sakamála tók eingöngu til lagaatriða fyrir tilkomu Landsréttar en takmarkað endurmat á sönnunargögnum fór fram í Hæstarétti.

Í kjölfar dóms Mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu voru um nokkurra mánaða skeið aðeins ellefu dómarar af fimmtán sem tóku þátt í dómstörfum þar til þeim var fjölgað í þrettán með setningu tveggja dómara tímabundið. Áhyggjum hefur verið lýst af álagi við dóminn sem þessi staða skapi með óæskilegum áhrifum á málshraða. Meðal réttinda sakaðra manna er að ekki verði óeðlilegar tafir á málsmeðferð og sá sem borinn er sökum eigi rétt á að leyst sé úr máli eins fljótt og auðið er.

Meðal málshraði sakamála á yfirstandandi ári í Landsrétti eru tæpir tíu mánuðir.

Málshraði áfrýjaðra einkamála er 8,5 mánuðir á sama tíma. Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins áréttar Björn L Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, að stutt sé frá því að Landsréttur tók til starfa og enn hafi ekki byggst upp reynsla af því hvers vænta megi í málshraða enda yfirstandandi ár í raun fyrsta rekstrarárið þar sem aðstreymi mála er jafnt yfir allt árið.

Í ársskýrslu Dómstólasýslunnar fyrir síðasta ár kemur fram að í Landsrétti sé stefnt að því að halda í heiðri þau viðmið dómstólasýslunnar að yfirleitt verði leyst úr áfrýjuðum málum innan átta mánaða frá áfrýjun. Eins og tölurnar sýna er meðalmálshraði töluvert lengri sérstaklega þegar litið er til sakamála. Í ársskýrslunni er þó tekið fram að málshraðinn sé ekki að öllu leyti á valdi Landsréttar í sakamálum þar sem undirbúningur þingfestingar sakamála sé á hendi ríkissaksóknara og engin viðmið um tímalengd þess undirbúnings hafa verið skilgreind.

Dómfelldu í Bitcoin-máli beðið í 10 mánuði

Hið svokallaða Bitcoin-mál er ekki enn komið á dagskrá Landsréttar en dómur í málinu var kveðinn upp í janúar. Sjö menn voru þá dæmdir fyrir aðild að innbrotum og þjófnaði úr tveimur gagnaverum. Þeir fimm sem hlutu þyngstu refsingu áfrýjuðu málinu til Landsréttar og var málið skráð þar 8. mars síðastliðinn. Þótt átta mánuðir séu liðnir hefur málið ekki enn verið tekið á dagskrá réttarins.

Í svari Landsréttar við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að ástæðan sé sú að ríkissaksóknari hafi enn ekki þingfest málið og afhent gögn þess til Landsréttar. Í svari ríkissaksóknara segir að Héraðsdómur Reykjaness hafi enn ekki afhent gögn málsins þótt óskað hafi verið eftir því og sú beiðni verið ítrekuð.

Málsmeðferð Hæstaréttar í bága við Mannréttindasáttmála

Sigurþór Arnarsson var árið 1998 sýknaður í héraði af aðild að alvarlegri líkamsárás á veitingastaðnum Vegas. Hæstiréttur sneri sýknudóminum við og sakfelldi Sigurþór á grundvelli endurmats á skýrslum sem vitni veittu í héraðsdómi án þess að dómarar Hæstaréttar hlýddu sjálfir á vitnisburði. Sigurþór fór með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að meðferð málsins fyrir Hæstarétti hefði ekki verið í samræmi við ákvæði 6. gr. mannréttindasáttmálans um rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Mál Sigurþórs var í kjölfarið endurupptekið í Hæstarétti og hann sýknaður. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í fyrra voru Sigurþóri dæmdar 18 milljónir í skaðabætur fyrir ólögmæta sakfellingu og frelsissviptingu.

Fyrr á þessu ári felldi MDE aftur áfellisdóm gegn Íslandi á sömu forsendum og í Vegasmálinu. Um var að ræða mál starfsmanns Húsasmiðjunnar sem var sakfelldur í Hæstarétti fyrir ólögmætt verðsamráð. Fleiri mál bíða niðurstöðu MDE vegna Húsasmiðjumálsins.