Allt er nú komið á fullt í flokkunum fyrir næstu kosningar og margir ganga með þingmann í maganum. Á meðan sumir flokkar eru þegar byrjaðir að velja á lista hafa aðrir ákveðið að fara hægar í sakirnar og taka frekar hraðan endasprett.
Áhugi á sæti Steingríms
Hjá Vinstri grænum verður forval í öllum kjördæmum, en það þýðir að kosið verður í efstu sæti á lista og uppstillingarnefnd raðar í önnur sæti. Samkvæmt upplýsingum frá flokknum er stefnt að því að ljúka við framboðslistana fyrir sumarfrí.
Útlit er fyrir mikla spennu í forvali flokksins í Norðausturkjördæmi þar sem nokkrir takast á um sætið sem Steingrímur J. Sigfússon hefur setið í frá stofnun flokksins.

Þingflokksformaðurinn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefur þegar lýst yfir að hún sækist eftir oddvitasætinu og það hefur oddvitinn í Norðurþingi, Óli Halldórsson, einnig gert.
Þá hefur Kári Gautason, framkvæmdastjóri þingflokks VG, einnig lýst því yfir að hann sækist eftir því að vera ofarlega á lista. Hugins Freys Þorsteinssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns Steingríms, hefur einnig verið nefnt í kjördæminu.
Kolbeinn Óttarsson Proppé velti án efa fyrir sér framboði fyrir norðan en hefur ef til vill hætt að lítast á blikuna og tilkynnti nú í vikunni að hann sæktist eftir forystu í Suðurkjördæmi, en Ari Trausti Guðmundsson ætlar að láta gott heita eftir þetta kjörtímabil.
Enginn hefur enn gefið kost á sér gegn Lilju Rafneyju Magnúsdóttur sem sækist áfram eftir forystu í sínu kjördæmi fyrir vestan.
Þær stöllur Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir verða án efa í sínum sætum í Reykjavíkurkjördæmunum og líklegt er að þriðji ráðherra flokksins, varaformaðurinn Guðmundur Ingi Guðbrandsson taki sér stöðu í kraganum þar sem Rósa Björk var áður í forystu fyrir flokkinn.

Flótti úr Reykjavík
Í Samfylkingunni er allur gangur hafður á aðferðum við val á lista. Vinna stendur yfir við uppstillingu í Reykjavík þar sem útlit er fyrir að þingkonan Helga Vala Helgadóttir leiði aftur sitt kjördæmi í Reykjavík og Kristrún Frostadóttir hagfræðingur leiði það kjördæmi sem Ágúst Ólafur Ágústsson leiddi fyrir síðustu kosningar.
Töluverður flótti virðist hlaupinn í frambjóðendur í Reykjavík en auk Ágústs Ólafs, sem ætlar ekki að þiggja boð um þriðja sæti á lista, hafnaði Rósa Björk Brynjólfsdóttir boði um 2. sæti og gefur nú kost á sér í kraganum. Þar er stefnt að því að klára uppstillingu fyrir 12. mars en þingmaðurinn Guðmundur Andri Thorsson er oddviti í kjördæminu. Þá mun Jóna Þórey, fyrrverandi forseti Stúdentaráðs HÍ, hafa hug á framboði í kjördæminu.
Uppstilling verður í Suðurkjördæmi, þar sem Oddný Harðardóttir er, allavega enn sem komið er, óskoraður oddviti. Ekki liggur enn fyrir hvernig raðað verður á lista í kjördæmi formannsins fyrir norðan en aðalfundur verður í Norðausturkjördæmi í lok janúar og um miðjan febrúar í Norðvesturkjördæmi.
Prófjörum Pírata lýkur í mars
Prófkjörum hjá Pírötum lýkur 13. mars en opnað var fyrir framboð hjá flokknum 9. janúar síðastliðinn. Aðeins þrír þingmenn flokksins hyggjast halda áfram; Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Halldóra Mogensen og Björn Leví Gunnarsson.
Álfheiður Eymarsdóttir varaþingmaður gefur kost á sér til forystu í Suðurkjördæmi, þar sem fráfarandi þingmaður, Smári McCarthy, leiddi flokkinn fyrir síðustu kosningar. Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi hefur enn ekki lýst yfir hvort hún hyggist færa sig yfir í landsmálin.

Framsóknarspenna fyrir norðan
Fjölbreytnin ræður ríkjum við val á lista í Framsóknarflokknum. Lokuð prófkjör verða í Suðurkjördæmi og Suðurvesturkjördæmi þann 10. apríl þar sem kosið verður um efstu fimm sætin.
Formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson og Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar hafa ekki sýnt á sér neitt fararsnið og verða væntanlega áfram í forystu sinna kjördæma.
Í Reykjavík verður uppstilling og á henni að ljúka 10. mars. Listarnir verða svo afgreiddir á aukakjördæmaþingi 24. mars. Ráðherrarnir Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason verða í framboði í Reykjavík.
Póstkosning fer fram í Norðvesturkjördæmi frá 16. febrúar til 13. mars og í Norðausturkjördæmi frá 1. til 31. mars.
Líkt og hjá Vinstri grænum er útlit fyrir spennandi kosningu hjá Framsókn í Norðausturkjördæmi þar sem oddvitinn Þórunn Egilsdóttir mun ekki sækjast eftir endurkjöri.

Líneik Anna Sævarsdóttir þingkona sækist nú eftir fyrsta sætinu og það gerir einnig Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri. Þá hafa Þórarinn Pétursson varaþingmaður, Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, og Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps, gefið kost á sér í 2. sæti.
Með ákvörðun Ásmundar Einars Daðasonar um að færa sig til Reykjavíkur skapast rými fyrir nýtt fólk í Norðvesturkjördæmi.
Þrír hafa lýst áhuga á leiðtogasæti Framsóknar þar: Halla Signý Kristjánsdóttir alþingiskona, Stefán Vagn Stefánsson, lögreglumaður og forystumaður flokksins í Skagafirði, og Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti flokksins í Borgarbyggð.
Slembivalin kjörnefnd Sósíalista
Kjörnefnd, sem er slembivalinn hópur almennra félaga, raðaði fólki á framboðslista hjá Sósíalistum.
„Fram undan er umræða meðal flokksfólks um erindi og áherslur framboðs flokksins til þings, val í skuggaráðuneyti flokksins í einstökum málefnahópum og virkjun félaga til starfa í baráttuhópum og hverfa-, bæja- og landshlutahópum,“ segir Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar flokksins.
„Fram undan er umræða meðal flokksfólks um erindi og áherslur framboðs flokksins til þings.“
Gunnar segist reikna með að listar flokksins í öllum kjördæmum verði fullskipaðir í mars eða apríl næstkomandi, í síðasta lagi 1. maí, á baráttudegi verkalýðsins, þegar flokkurinn verður fjögurra ára.
Uppstilling líkleg í Viðreisn
Landshlutafélögin í Viðreisn eru enn að ákveða hvaða leið verður farin við röðun á lista en gert er ráð fyrir að ákvarðanir þeirra liggi fyrir upp úr áramótum.
Flokkurinn hefur hingað til viðhaft uppstillingu, enda flokkurinn ungur en það eru félög í hverjum landshluta fyrir sig sem taka ákvarðanir um leiðir.
Flokkurinn fékk 6,7 prósent í síðustu kosningum og fjóra menn kjörna, alla á höfuðborgarsvæðinu.

Formaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er oddviti í kraganum og þar var þingmaðurinn Jón Steindór Valdimarsson í öðru sæti. Þingkonurnar Hanna Katrín Friðriksson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir eru þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna tveggja.
Málið gæti þó vandast nú þar sem nýr varaformaður flokksins, Davíð Már Kristófersson, sækist eflaust eftir öruggu þingsæti. Flokkurinn hefur hins vegar mælst með um það bil 10 prósenta fylgi mestan part yfirstandandi kjörtímabils og gæti því bætt við sig þingmönnum í næstu kosningum.
Ákall um konur og ungt fólk
Í Miðflokknum er reiknað með að stillt verði upp á lista með vorinu, sennilega eftir páska, en töluverð spenna ríkir um framboðslista flokksins í Suðurkjördæmi. Talið er að í það minnsta tveir muni bítast um oddvitasætið. Birgir Þórarinsson leiddi flokkinn árið 2017 en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Karl Gauti Hjaltason, sem kom úr Flokki fólksins, hug á að leiða listann.
Fleiri eru sagðir áhugasamir um framboð, þá helst Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, varaformaður kjördæmisfélagsins, og Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi í Árborg.

Enginn úr núverandi þingliði hefur lýst því yfir að ætla að hætta á þingi. Flokkurinn þarf að ná um 15 prósenta kosningu til að halda öllum sínum níu mönnum, en mældist með innan við sjö prósenta fylgi í síðustu könnun Fréttablaðsins.
Öruggt er talið að formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson leiði í Norðausturkjördæmi og einnig hafa báðir þingmenn flokksins í Reykjavík, Þorsteinn Sæmundsson og Ólafur Ísleifsson, lýst yfir framboði. Þá er ekki er gert ráð fyrir öðru en að Gunnar Bragi Sveinsson sækist áfram eftir oddvitasæti í kraganum.
Innan úr flokknum heyrast hins vegar óánægjuraddir um skort á konum og yngra fólki. Hefur nafn Nönnu Margrétar Gunnlaugsdóttur, systur formannsins, verið nefnt til að leiða einn af listunum. Einnig hefur verið skorað á Vigdísi Hauksdóttur að færa sig aftur í landsmálin.
Treysta á góðan endasprett
Framboðslistar Sjálfstæðisflokksins verða ekki tilbúnir fyrr en um mitt sumar, en flokkurinn ætlar í kosningabaráttuna á snörpum lokaspretti stuttu fyrir kosningar.
Hefur miðstjórn flokksins beint því til kjördæmafélaga að ekki verði boðað til prófkjöra fyrr en í júní, um svipað leyti og þing lýkur störfum. Þannig nái ríkisstjórnin að ljúka sínum verkefnum án þess að prófkjörsbaráttan trufli þingstörf.
Flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru í fullu fjöri og enginn hefur lýst yfir að hann verði ekki í framboði.
Augu flestra verða væntanlega á Reykjavíkurkjördæmunum þar sem búast má við að fjórir framámenn í flokknum keppist um oddvitasætin tvö; annars vegar oddvitar kjördæmanna: Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigríður Á. Andersen, sem sagði af sér sem ráðherra á kjörtímabilinu, og hins vegar nýi dómsmálaráðherrann Áslaug Árna Sigurbjörnsdóttir og þingmaðurinn Brynjar Níelsson, sem er líklega orðinn þreyttur á að víkja fyrir konunum.

Nokkur ný andlit eru líkleg til að blanda sér í baráttuna í Reykjavík, þeirra á meðal nokkrir aðstoðarmenn ráðherra, Diljá Mist Einarsdóttir, Borgar Þór Einarsson og Hildur Sverrisdóttir.
Borgar Þór er þó einnig sagður íhuga framboð í kraganum þar sem flokkurinn fékk fjóra þingmenn í síðustu kosningum. Fleiri ný nöfn eru nefnd í kjördæmi formannsins, þar á meðal nafn Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra þingflokksins.

Þingmenn flokksins í Suðurkjördæmi ætla sér allir að halda áfram á þingi en þar ætlar Unnur Brá Konráðsdóttir að reyna aftur fyrir sér um forystu.
Ekki liggur fyrir hvað sjávarútvegsráðherrann hyggst fyrir en áhugamenn um framboð í Norðausturkjördæmi eru sagðir halda að sér höndum þar til ljóst verður hvað oddvitinn Kristján Þór Júlíusson ætlast fyrir.
Almælt er að nafni hans Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, hafi áhuga á framboði og talið er öruggt að Njáll Trausti Friðbertsson muni áfram sækjast eftir þingmennsku.
Þá hefur Gauti Jóhannsson, fyrrverandi sveitarstjóri á Djúpavogi, verið orðaður við framboð en hann leiddi flokkinn til góðs sigurs í nýstofnuðu Múlaþingi í haust

Í Norðvesturkjördæmi er líklegt að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra og varaformaður, sækist eftir oddvitasætinu sem Haraldur Benediktsson vermdi fyrir síðustu kosningar.
Haraldur hefur sjálfur ekki lýst sínum áformum en Teitur Björn Einarsson varaþingmaður hefur hins vegar lýst áhuga á þingsæti í kjördæminu. Því er ekki ólíklegt að þeir etji kappi um 2. sæti listans í kjördæminu.
Fréttablaðið óskaði upplýsinga frá Flokki fólksins um framboðsmál flokksins en svar hafði ekki borist áður en Fréttablaðið fór í prentun.